Tilkynningar

Tíu þúsundasti nemandinn á Skólaþingi Alþingis

15.12.2014

Í dag tekur tíu þúsundasti nemandinn sæti á Skólaþingi. Forseti Alþingis Einar K. Guðfinnsson mun fagna þessum tímamótum, kl.11.00, með nemendum úr Varmárskóla sem skipa Skólaþing í dag.
Skólaþingi var komið á fót í nóvember 2007 og er því ætlað að koma til móts við áhuga á því að koma með nemendur í vettvangsferðir á Alþingi. Nemendur 70 grunnskóla hafa nú heimsótt Skólaþing. Á Skólaþingi fara nemendur efstu bekkja grunnskóla í hlutverkaleik og fylgja í stórum dráttum reglum um starfshætti Alþingis. Nemendurnir fá tækifæri til að setja sig í spor þingmanna með því að leiða til lykta fyrir fram ákveðin málefni sem fyrir þá eru lögð á þingflokksfundum, nefndarfundum og þingfundum. Jafnframt meta þeir rök sérfræðinga og annarra. Ætlunin er að veita innsýn í sambandið milli atburða í samfélaginu, skoðanamyndunar, pólitískra ákvarðana og starfa Alþingis. Nemendur eiga að komast að lýðræðislegri niðurstöðu með því að meta rök og álit annarra og taka afstöðu.

Höfundur handrits Skólaþings er Gerður Kristný en starfsfólk Gagarín sá um hönnun og vinnslu margmiðlunarefnis. Nánari upplýsingar um Skólaþing má sjá á skolathing.is