Tilkynningar

Um nýjan vef Alþingis

27.9.2001

Forseti Alþingis, Halldór Blöndal, opnaði 27. september nýjan vef Alþingis. Undanfarin missiri hefur verið unnið að gerð nýs Alþingisvefs og er tilgangurinn með breytingum í meginatriðum fjórþættur:

1. Að gera vefinn lifandi með þeim hætti að fólk fái sem fyrst upplýsingar um það sem er að gerast í þingstarfinu: Hvaða nefndafundir eru í gangi, hvaða ný mál hafa verið lögð fram, hver er dagskrá þingfundar, hvaða lög eru ný, hvaða varamaður hefur tekið sæti á Alþingi o.s.frv. Forsíðan tekur mið af þessu markmiði.

2. Að gera vefinn notendavænni. Gagnaleit er auðvelduð og útlit vefsíðna er samræmt. Enn má margt betur fara í þessum efnum og verður vefurinn því í frekari endurskoðun að þessu leyti á næstu vikum og mánuðum.

3. Að gera vefinn persónutengjanlegan með þeim hætti að hver og einn geti að hluta til valið það efni sem birtist honum á vefnum. Vinstri dálkur forsíðu vefsins verður sameiginlegur fyrir alla en hins vegar verður mögulegt að breyta hægri dálki og setja þar inn það efni sem menn vilja helst hafa til viðbótar á forsíðunni. Þá mun hver og einn geta hannað það sem kallað er "Síðan mín" (sem er undirsíða forsíðunnar) og haft á þeirri síðu efni bæði í vinstri og hægri dálki sem þeir helst kjósa. Tæknilegir hnökrar kunna að verða á þessu fyrstu dagana og er fólk beðið að taka tillit til þess. Alþingi verður fyrsta þingið í Evrópu sem býður upp á persónutengjanlegan vef.

4. Að vefurinn sé hluti af samræmdri heildarmynd af útgáfuefni Alþingis. Það er því lögð áhersla á að á vefnum séu sömu litir og undanfarin ár hafa verið í prentuðu útgáfuefni þingsins (handbók, ársskýrslu, kynningarbæklingum o.fl.). Þetta eru sömu litirnir og eru í þingsalnum og sem hafa unnið sér hefð sem litir Alþingis.

Til viðbótar þessum meginmarkmiðum var myndefni aukið á vefnum. Birtar eru t.d. myndir frá þingfundum, nefndafundum og heimsóknum í Alþingishúsið.

Vinna við endurgerð vefs hefur að mestu verið á hendi starfsfólks Alþingis. Útlit vann Kristín Eva Ólafsdóttir hjá Gagarín ehf.