Tilkynningar

Skáli Alþingis tekinn í notkun 27. september

26.9.2002

Föstudaginn 27. september kl. 3 síðdegis mun forseti Alþingis, Halldór Blöndal, opna Skálann, nýja þjónustubyggingu við Alþingishúsið.

Í Skálanum er aðalinngangur í Alþingishúsið og í honum er margháttuð þjónusta fyrir þingmenn, starfsmenn Alþingis og gesti. Þar er matstofa, fundarherbergi fyrir þingmenn til að taka á móti gestum, fræðslustofa fyrir hópa sem vilja kynna sér starfsemi Alþingis og aðstaða fyrir fjölmiðlamenn, auk ýmissar annarrar starfsemi.

Nýbyggingin er samtals um 2.460m². Skálinn er tæpur helmingur byggingarinnar en bílastæðið rúmur helmingur. 

Aðalhönnuður Skálans er arkitektastofan Batteríið. Aðalverktakar voru ÓG Bygg ehf. og Íslenskir aðalverktakar. 

Húsgögn í Skálanum eru hönnuð af Erlu Sólveigu Óskarsdóttur. Stóllinn Bessi er einkennishúsgagn byggingarinnar. Listaverk eftir Hafdísi Helgadóttur og Ólöfu Nordal prýða neðri hæð Skálans. 

Lengi hefur verið talið brýnt að bæta húsnæðismál Alþingis. Efnt var til samkeppni árið 1986 um nýbyggingu á Alþingisreit sem hýsa skyldi nær alla þjónustu fyrir þingið, en þingsalur og nánasta þjónusta við hann yrði þó áfram í Alþingishúsinu. Með Alþingisreit er átt við svæðið sem afmarkast af Kirkjustræti, Vonarstræti, Templarasundi og Tjarnargötu. Áformað var að rífa öll gömlu húsin við Kirkjustræti og tengja nýbygginguna neðan jarðar við þinghúsið. Sigurður Einarsson arkitekt hlaut 1. verðlaun í samkeppninni. Þegar til kom þótti í of mikið ráðist og var talið rétt að vinna að verkefninu í smærri áföngum. Í nýju skipulagi var ákveðið að byggja þjónustumiðstöð í tengslum við Alþingishúsið og endurgera flest gömlu húsin á reitnum en byggja hús fyrir skrifstofur og nefndir á vesturhluta reitsins meðfram Tjarnargötu. Endurbyggingu tveggja timburhúsa við Kirkjustræti lauk árið 1996. Að loknu löngu undirbúningsferli samþykkti forsætisnefnd árið 1998 að reisa Skálann. Fyrsta skóflustungan var tekin í maí 1999 og byggingarvinnu lauk í september 2002. Fyrri áfangi verksins hófst með byggingu bílakjallara vorið 1999, aðalverktakar við þann hluta verksins voru ÓG Bygg ehf. Síðari áfangi var uppsteypa hússins og allur frágangur húss og lóðar. Íslenskir aðalverktakar voru aðalverktakar við seinni áfangann en vinna við hann hófst í ágúst 2001.

Alþingishúsið og Skálinn verða opin almenningi næstkomandi laugardag 28. september frá kl. 10 árdegis til kl. 4 síðdegis. Inngangur verður um aðaldyr Skálans en gengið út um aðaldyr Alþingishússins.