Tilkynningar

Útgáfa ritsafns Snorra Sturlusonar 3. október

2.10.2002

Ritsafn Snorra Sturlusonar kemur út fimmtudaginn 3. október og verður fyrsta eintakið afhent Alþingi í nýjum Skála við þinghúsið kl. 13 þann dag. Er þetta í fyrsta sinn sem ritsafn Snorra er gefið út í heild á íslensku. Verkið er í þremur bindum og veglega myndskreytt. Alþingi hefur veitt myndarlegan styrk til þessarar útgáfu. 

Snorri Sturluson er höfuðskáld Íslendinga að fornu og nýju. Verk hans eru kjölfestan í þjóðarvitund norrænna manna og enginn hefur með sama hætti mótað sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar. Vésteinn Ólason prófessor segir m.a. í ítarlegum inngangi: Snorri reisti sjálfum sér og þeirri menningu sem ól hann óbrotgjarnan minnisvarða með ritverkum sínum.

Verk Snorra hafa lengi verið listamönnum víða um heim innblástur og hér bætast fimm íslenskir myndlistarmenn í þá sveit. Þeir eru Jóhann L. Torfason, Jón Axel Björnsson, Magdalena Margrét Kjartansdóttir, Pétur Halldórsson og Valgarður Gunnarsson.

Fyrsta eintak ritsafnsins verður afhent Alþingi til eignar og mun forseti þingsins, Halldór Blöndal, veita því viðtöku í hinum nýja þingskála fimmtudaginn 3. október 2002 klukkan 13. Þar verður einnig opnuð sýning á verkunum sem eru í bókinni. 


DAGSKRÁ
Gestir safnast saman í fræðslustofu á 1. hæð Skálans.

1. Forseti Alþingis býður gesti velkomna og flytur ávarp.
2. Halldór Guðmundsson forstjóri afhendir fyrsta eintakið.
3. Vésteinn Ólason prófessor talar um Snorra.
4. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur gerir grein fyrir myndlýsingu verksins.
5. Forseti Alþingis opnar sýningu með verkum úr ritsafninu.