Tilkynningar

50 ára afmælis hljóðupptöku á þingræðum minnst 15. nóvember

14.11.2002

Forseti Alþingis opnaði sýningu á munum og skjölum föstudaginn 15. nóvember í Skálanum í tilefni þess að þann 1. október síðastliðinn voru 50 ár liðin frá því að Alþingi hóf að nota hljóðupptökur til að skrásetja ræður þingmanna.

Íslendingar hafa alltaf verið fljótir að tileinka sér tækninýjungar og 1. október 1952 varð Alþingi fyrst þinga í Evrópu til að treysta eingöngu á hljóðupptökur í stað þingskrifara við útgáfu ræðuhluta Alþingistíðinda þegar tekin voru í notkun hljóðupptökutæki sem keypt höfðu verið í Bandaríkjunum sama ár.

Alþingistíðindi hafa verið gefin út samfellt frá endurreisn Alþingis 1845. 

Á sýningunni má meðal annars sjá gömul hljóðupptökutæki og hraðritunargögn. Þar er einnig til sýnis fyrsti ræðustóllinn sem tekinn var í notkun 1952 en fram að þeim tíma höfðu þingmenn talað úr sætum sínum. Setja þurfti bráðabirgðalög 12. september 1952 svo þingmenn mættu tala úr ræðustól er þing kæmi saman 1. október það ár.

Á sýningunni gefst tækifæri til að hlusta á hljóðdæmi af röddum allra forsætisráðherra frá 1952. Jafnframt er hægt að heyra brot af fyrstu tilraunaupptökunni sem gerð var 25. apríl 1949.

Sýningin í Skálanum er opin almenningi frá 10-12 og 14-16 á virkum dögum til 13. desember.