Tilkynningar

Sýning í Jónshúsi í tilefni 100 ára afmælis heimastjórnar og þingræðis

2.3.2004

Ný sýning í tilefni 100 ára afmælis heimastjórnar og þingræðis á Íslandi hefur verið opnuð í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, opnaði sýninguna fimmtudaginn 4. mars 2004.
 

Hús Jóns Sigurðssonar við Øster Voldgade 12 (Austurvegg) er í eigu Alþingis, en Carl E. Sæmundsen gaf Alþingi húsið árið 1967 til minningar um Jón Sigurðsson sem bjó þar ásamt Ingibjörgu Einarsdóttur konu sinni frá 1852 þar til þau létust í desember 1879. Frá árinu 1972 hefur verið uppi sýning í húsinu til minningar um ævi og störf Jóns Sigurðssonar. Sýningin var endurgerð árið 1993.

Í tilefni af 100 ára afmæli heimastjórnar og þingræðis á Íslandi ákvað Alþingi að endurbæta þá sýningu sem uppi er í Jónshúsi. Aukið verður við sýninguna umfjöllun um sjálfstæðisbaráttuna að Jóni Sigurðssyni gengnum og stærstu áfangana sem síðar unnust; heimastjórn 1904, fullveldi 1918 og loks lýðveldi 1944. Enn fremur verður sett upp lítil sýning um Ingibjörgu konu Jóns og þátt hennar í heimilishaldinu við Austurvegg og verður hún í því herbergi sem kallað hefur verið eldhús Ingibjargar. Þar hefur vinnuherbergi fræðimanns verið undanfarin ár, en flyst nú á 2. hæð í húsinu.

Munir úr Safni Jóns Sigurðssonar, sem Þjóðminjasafn Íslands varðveitir, verða hafðir til sýningar í Jónshúsi.
Guðjón Friðriksson sagnfræðingur semur nýja sýningartexta og Björn G. Björnsson hannar útlit sýningarinnar. Jafnframt verður húsnæðið allt málað og lagfært á ýmsan hátt, bókasafn og önnur starfsemi flutt til og löguð að breyttum kröfum.

Jón Sigurðsson var fremsti leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á 19. öld og í Jónshúsi var miðstöð þeirrar baráttu. Þau hjón héldu uppi mikilli risnu á heimili sínu og það var jafnan opið gestum og gangandi. Einu sinni í viku var opið hús og þá söfnuðust Íslendingar í Kaupmannahöfn saman í stofum Jóns og Ingibjargar og nutu gestrisni húsráðenda.