Tilkynningar

Opið hús á Alþingi

24.9.2005

Alþingishúsið og Skálinn verða almenningi til sýnis í dag laugardag 24. september frá kl. 10 til kl. 15. Inngangur er um aðaldyr Skálans.

Árið 2002 var ákveðið að ráðast í endurbætur á Alþingishúsinu öllu. Engar heildstæðar viðgerðir höfðu þá verið gerðar á húsinu frá því það var byggt árið 1881.

Framkvæmdunum var skipt í nokkra áfanga enda einungis hægt að vinna að þeim að sumarlagi meðan hlé er á þingstörfum. Sumarið 2003 var gert við suður- og austurhlið hússins að utan og anddyri þess endurgert. Sumarið 2004 var unnið að endurbótum og viðgerðum innan húss á 1. og 2. hæð og voru meðal annars gólfplötur í herbergjum 1. hæðar brotnar upp, skipt um jarðveg og gólfin steypt á ný enda höfðu komið í ljós verulegar rakaskemmdir í gólfum. Sumarið 2005 var viðgerðum haldið áfram, einkum á 1. og 3. hæð. Lyfta var sett í húsið svo að nú eiga fatlaðir greiðan aðgang að þingpöllum.

Umfangsmiklar viðgerðir á útveggjum hússins reyndust nauðsynlegar en viðhald á þeim hafði verið lítið frá upphafi. Ólokið er raunar viðgerð á norður- og vesturhlið hússins auk viðgerðar á þaki.

Ákveðið var að færa húsið að innan sem næst upprunalegu horfi og margvíslegar endurbætur voru gerðar á veggjum og loftum, meðal annars lagfærðar skemmdir í suðvesturhluta hússins eftir jarðskjálftana 2000.

Í áranna rás hafði húsið tekið breytingum, til dæmis með tilkomu nýrrar tækni, svo sem síma, rafmagns, miðstöðvarkyndingar og tölvubúnaðar. Úreltar lagnir voru hreinsaðar burtu og gengið sem snyrtilegast frá nýjum. Eftir er þó að endurgera loftræstikerfi hússins.

Að loknum endurbótum á að velja ný húsgögn í Alþingishúsið. Vorið 2005 var leitað til þriggja húsgagnahönnuða um tillögur að stólum og borðum. Tillögurnar eru til sýnis á 1. hæð Alþingishússins. 

Heildarkostnaður við endurgerð og viðgerðir á Alþingishúsinu er um 285 milljónir kr. Kostnaður við viðgerðir sem enn er ólokið utan húss og við loftræstikerfi og endurnýjun húsgagna er áætlaður um 100 milljónir kr.