Tilkynningar

Þingræði á Íslandi í hundrað ár

22.5.2013

Ritnefnd verksins þingræði á Íslandi í hundrað ár auglýsir eftir meðhöfundum. Verkið verður samið á vegum Alþingis í tilefni af 100 ára sögu þingræðis á Íslandi 1904 til 2004. Stefnt er að heildstæðu og þverfaglegu verki, á grundvelli lögfræði, sagnfræði og stjórnmálafræði, sem komi út í einu bindi á árinu 2008. Að því mun vinna hópur 5-8 fræðimanna, þar með talin ritnefndin: Ragnhildur Helgadóttir lögfræðingur (formaður), Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur og Þorsteinn Magnússon stjórnmálafræðingur. Hverjum höfundi verður falið að semja tiltekna kafla, e.t.v. einnig sérfræðiefni (ítarefni) í aðra kafla, svo og yfirlestur á öðru efni út frá sérþekkingu sinni. Samning ritsins stendur frá hausti 2006 til vors 2008, en meginvinnan verður unnin á árinu 2007.
 

Miðað er við að höfundar verði í samfelldri vinnu við verkið og fái á þeim tíma sem ætlaður er til vinnunnar greidd laun mánaðarlega. Greiðslur taka mið af launum dósents við Háskóla Íslands.

Fræðimenn, sem hafa sérþekkingu á viðfangsefni ritsins og kynnu að hafa áhuga á að skrifa í ritið, eru beðnir að gefa sig fram við ritnefndina fyrir 15. júní 2006. Erindi til ritnefndar er hægt að senda á netfangið tm@althingi.is eða í pósti: Skrifstofa Alþingis, Alþingishúsinu við Austurvöll, 150 Reykjavík, b.t. ritnefndar þingræðis á Íslandi í 100 ár. Fylgja skal:

ferilsskrá;
ritaskrá;
greinargerð um sérþekkingu og áhugasvið sem tengjast þingræði og sögu þess;
lýsing á möguleikum til að vinna að verkefninu (í hlutastarfi eða í fullu starfi um skemmri tíma) á áætluðum verktíma.

Nánari upplýsingar veita Ragnhildur Helgadóttir, formaður ritnefndar, í síma 5996282, Helgi Skúli Kjartansson í síma 5627504 og Þorsteinn Magnússon í síma 5630922.