Tilkynningar

Ávarp forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, í móttöku fyrir starfsmenn Alþingis

22.11.2007

Ágæta starfsfólk Alþingis!

Ég býð ykkur velkomin hér í dag. Með þessari móttöku vil ég fá tækifæri til að þakka ykkur fyrir þá miklu vinnu sem þið lögðuð á ykkur í tengslum við NATO-þingið í síðasta mánuði. Ég vil um leið þakka ykkur kærlega fyrir hversu vel þið leystuð ykkar verkefni af hendi. Framlag allra starfsmanna Alþingis var mikilvægt hvort sem fólk var í Höllinni eða stóð vaktina hér við Austurvöll.

NATO-þingið er umfangsmesti alþjóðafundur sem Alþingi hefur staðið fyrir og undirbúningur þess stóð yfir í langan tíma. Þó að hér hafi áður verið haldin viðamikil þing, eins og t.d. þing Norðurlandaráðs, þá voru nú gerðar meiri kröfur um öryggisgæslu, túlkun og fleiri atriði sem gerðu alla framkvæmd þessa þings mun flóknari og umfangsmeiri en aðrir þeir alþjóðaviðburðir sem við höfum komið að. 

Það var þess vegna mjög ánægjulegt að heyra það frá forustu NATO-þingsins að þar á bæ voru menn sérstaklega ánægðir með hversu vel tókst til með allan undirbúning og framkvæmd þingsins. Allir þeir erlendu gestir sem ég hitti luku í einu máli lofsorði á framgöngu starfsmanna Alþingis. Það var sérstaklega nefnt að þeir starfsmenn okkar sem höfðu forustu við undirbúning þingsins hefðu gengið mjög skipulega til verks og allt staðist sem af okkar hálfu var lofað. Þá fannst þeim greinilega mikið til um það vinalega og jákvæða viðmót sem einkenndi framkomu starfsfólk þingsins. En þegar fólk stendur sig svona vel þá eru afleiðingarnar líka alltaf þær sömu: nú vill NATO fá að halda þingið sem fyrst hérna aftur!

Nató-þingið í Reykjavík staðfestir því með skýrum hætti að hér starfar einstaklega hæft fólk. Ég veit að forsetar hafa oft hrósað sér af því að á skrifstofu Alþingis er einvalalið, en ég held að það hafi aldrei sem fyrr komið í ljós eins og núna hversu vel skrifstofan er mönnuð. Ég er ekki viss um að á hvaða vinnustað sem er hefðu menn sýnt það jákvæða viðhorf og þann sveigjanleika sem starfsfólk Alþingis sýndi þegar kom að því að ganga til verka sem voru oft ansi fjarri því sem það fæst við daglega á skrifstofu þingsins. Það krefst líka ákveðinna hæfileika að geta brugðið sér í ýmiss konar hlutverk og það er greinilega hæfni sem starfsfólk hér býr yfir. 

Ég endurtek því þakkir mínar til allra starfsmanna Alþingis, bæði þeirra sem voru löngum stundum í Höllinni og þeirra sem á sama tíma stóðu vaktina í húsum Alþingis við Austurvöll og tóku á sig aukin verkefni í fjarveru samstarfsmanna á skrifstofunni. 

Hafið öll bestu þakkir fyrir!