Tilkynningar

Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson opnar Skólaþing, kennsluver Alþingis

23.11.2007

Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, opnaði Skólaþing, kennsluver Alþingis fyrir efstu bekki grunnskóla, 23. nóvember 2007 kl. 10. Á Skólaþingi fara nemendur í hlutverkaleik og fylgja í stórum dráttum reglum um starfshætti Alþingis. Nemendur úr 9. bekk Lindaskóla í Kópavogi hefja leikinn.

Öllum grunnskólum í landinu verður sent bréf til kynningar á starfsemi Skólaþings. Skólaþing er til húsa í Austurstræti 8-10 í rúmlega 300 fermetra húsnæði. Vefsíða Skólaþings er www.skolathing.is.

Miðað er við að einn bekkur komi í Skólaþing í einu og heimsóknin taki um tvær og hálfa klukkustund. Á þeim tíma fá nemendur tækifæri til að setja sig í spor þingmanna með því að leiða ákveðin mál sem fyrir þá eru lögð til lykta á þingflokksfundum, nefndarfundum og þingfundum. Jafnframt munu nemendur heyra rök álitsgjafa. Þannig er ætlunin að veita innsýn í sambandið milli atburða í samfélaginu, skoðanamyndunar, pólitískra ákvarðana og starfa Alþingis og sýna áhrif almennings, sérfræðinga, fjölmiðla og hagsmunaaðila á löggjafarstarf. Nemendur komast að niðurstöðu með því að hlusta og meta rök og álit annarra, tjá eigin skoðun, taka afstöðu og ná málamiðlun.

Með kennsluverinu er komið til móts við áhuga skóla á því að koma með nemendur í vettvangsferðir á Alþingi en á síðasta ári heimsóttu hátt í 3000 grunnskólanemar þingið. Skólaþinginu er þannig ætlað að auka fjölbreytni í fræðslu um Alþingi og er skólum boðið að nýta þennan möguleika en jafnframt verða hefðbundnar skoðunarferðir áfram í boði. Hjá efri bekkjum grunnskóla eru heimsóknirnar gjarnan í tengslum við kennslu í lífsleikni og þjóðfélagsfræði en í aðalnámskrá grunnskóla eru m.a. sett fram þau markmið fyrir kennslu í þessum greinum að miða skuli að því að auka skilning nemenda á reglum samfélagsins og hvar þær eru settar. 

Fyrsta kennsluver þjóðþings af þessu tagi var opnað árið 2003 við danska þingið og síðan hafa verið sett upp sams konar kennsluver við norska og sænska þingið.

Skólaþingið er sett á laggirnar samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar að frumkvæði fyrrverandi forseta Alþingis, Sólveigar Pétursdóttur. Árið 2006 var hópi starfsmanna skrifstofu Alþingis falið að hefja undirbúning og hafa umsjón með verkefninu og ráða sérfræðinga til handritsgerðar, hönnunar og forritunar.

Starfsmenn skrifstofu Alþingis sem höfðu umsjón með undirbúningi Skólaþings eru: Karl M. Kristjánsson, Solveig K. Jónsdóttir, Þorbjörg Árnadóttir, Sigurlín Hermannsdóttir og Einar Farestveit. Fjölmargir aðrir starfsmenn skrifstofunnar lögðu hönd á plóginn við ýmis verkefni tengd undirbúningi Skólaþings.

Umsjónarmenn heimsókna í Skólaþing eru: Hildur Gróa Gunnarsdóttir, Berglind Steinsdóttir og Sigríður H. Þorsteinsdóttir.

Handrit: Gerður Kristný.

Höfundar merkis Skólaþings: Hafþór Smári Sigþórsson í 10. bekk Vallaskóla, vinningshafi í hugmyndasamkeppni um merkið. Örn Smári Gíslason, grafískur hönnuður, útfærði og fullvann merkið.

Umsjón með samkeppni um merki Skólaþings: Jón Guðmundsson, Námsgagnastofnun.

Arkitektar: Guðrún Fanney Sigurðardóttir, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir og Massimo Santaniccia. 

Rafhönnuðir: Guðjón L. Sigurðsson, Kristinn Steinn Traustason og Þórdís Rós Harðardóttir, Rafteikning hf.
Hönnun og vinnsla margmiðlunarefnis: Gagarín ehf.

Yfirlestur á handriti: Ellen Klara Eyjólfsdóttir, Námsgagnastofnun og Lilja M. Jónsdóttir, KHÍ.

Verkefnastjóri frá Framkvæmdasýslu ríkisins: Gísli Tryggvason. 

Verklegar framkvæmdir við húsnæði Skólaþings: Álnabær, GÁ húsgögn, Einar Beinteins ehf., Epal, Exton, Formatlausnir ehf., GG lagnir, Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari, Ísloft - blikk og stálsmiðja ehf., Litaver, Málarasmiðjan ehf., Merkjalist, Rafteikning hf., Rými, Steggur ehf., Style, Tengi ehf., Raftíðni ehf., Stálsmiðjan ehf., VSB verkfræðistofa.