Tilkynningar

Nýr ríkisendurskoðandi

1.7.2008

Sveinn Arason tók í dag við embætti ríkisendurskoðanda, en það er forsætisnefnd Alþingis sem ræður í embættið til sex ára í senn. Við það tækifæri afhenti forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, honum ráðningarbréf og blóm frá Alþingi við stutta afhöfn í húsakynnum Ríkisendurskoðunar.

Sveinn Arason (f. 1948) lauk kandídatsprófi í viðskiptafræðum árið 1972 og hlaut löggildingu sem endurskoðandi árið 1976. Hann hefur starfað við Ríkisendurskoðun frá 1972, lengst af sem skrifstofustjóri á endurskoðunarsviði stofnunarinnar.

Sveinn Arason er þriðji maðurinn til að gegna stöðu ríkisendurskoðanda frá því að Ríkisendurskoðun varð sjálfstæð stofnun á vegum Alþingis 1. janúar 1987. Aðrir eru þeir Halldór V. Sigurðsson (til 1992) og Sigurður Þórðarson (1992–2008).

Sveinn Arason, nýr ríkisendurskoðandi, og Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis.