Tilkynningar

Nefnd um eftirlitshlutverk Alþingis

3.7.2008

Forsætisnefnd Alþingis ákvað á fundi sínum 3. júní 2008 að koma á fót nefnd sérfræðinga til þess að gera úttekt á eftirlitshlutverki Alþingis, lagaheimildum og framkvæmd, bera það saman við stöðu og nýlega þróun í nágrannalöndum og leggja fram hugmyndir um hugsanlegar breytingar.
 

Forseti Alþingis hefur skipað í nefndina þau Bryndísi Hlöðversdóttur, forseta lagadeildar Háskólans á Bifröst, Ragnhildi Helgadóttur, prófessor við Háskólann í Reykjavík, og Andra Árnason hæstaréttarlögmann.

Á fyrsta fundi nefndarinnar var Bryndís valin formaður hennar. Með nefndinni starfar Ásmundur Helgason, aðallögfræðingur Alþingis.

Nefndinni er ætlað að skila forsætisnefnd Alþingis áliti fyrir 1. júní að ári.

Úr lokaræðu forseta Alþingis í maí 2008

„Mér virðist það vera almennt viðhorf meðal alþingismanna að þær umbætur sem samþykktar voru á starfsháttum og þingsköpum Alþingis í desember hafi verið farsælar þó að skiptar skoðanir kunni að vera um fyrirkomulag umræðna. Ég lít hins vegar svo á að þessar úrbætur séu aðeins fyrsti þáttur í frekari breytingum sem nauðsynlegt er að gera á starfsháttum og starfsaðstöðu á Alþingi.

Einn veigamikill þáttur í þessu umbótaferli hefur verið að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis. Ég tel að efla þurfi sérstaklega eftirlitshlutverk fastanefndanna og að opna eigi einstaka nefndarfundi fyrir fjölmiðlum og hagsmunaaðilum. Í því skyni lagði ég í lok apríl fyrir forsætisnefnd tillögur um opna nefndarfundi og voru þær einróma samþykktar. Með þessari samþykkt forsætisnefndar hefur verið stigið mjög veigamikið skref sem á eftir að breyta ásýnd þingsins sem eftirlitsaðila með störfum framkvæmdarvaldsins. Nú er unnið að því að gera nauðsynlegar ráðstafanir svo fullnægjandi aðstaða verði fyrir nefndirnar til að halda opna nefndafundi.

Ástæða þess að ég legg svo mikla áherslu á eftirlitshlutverk Alþingis er sú eindregna skoðun mín að þingeftirlitið sé auk löggjafarstarfsins veigamesta hlutverk Alþingis og leiðir það ekki síst af þeirri stöðu sem Alþingi hefur í okkar þingræðisskipan. Mér finnst eðlilegt að fram fari heildarendurskoðun á þeim lagareglum sem gilda um þingeftirlitið. Ég hyggst því leggja fyrir forsætisnefnd tillögu um skipan nefndar sem fari yfir gildandi lagareglur, skoði álitaefni, rannsaki þá þróun sem orðið hefur í þessum efnum í nágrannalöndum okkar, ekki síst á Norðurlöndum, og skili síðan skýrslu til forsætisnefndar. Um þetta mál mun ég vitaskuld hafa náið samstarf við forustu þingflokkanna.“

Tillagan um undirbúning fyrir endurskoðun lagareglna um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu (pdf).