Tilkynningar

Svar forseta Alþingis við bréfi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs

23.7.2008

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs,
Ögmundur Jónasson formaður,
Vonarstræti 12,
101 Reykjavík.

Reykjavík, 23. júlí 2008.

Með bréfi 21. júlí sl. var komið á framfæri við forseta Alþingis ályktun sem samþykkt hafði verið á fundi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs sama dag. Þar er lagt til að Alþingi komi saman til funda strax eftir verslunarmannahelgi til að ræða stöðuna í efnahags- og atvinnumálum. Auk þess er það tillaga þingflokksins að efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd efni nú þegar til sameiginlegs fundar sem er ætlað að vera til undirbúnings umfjöllunar Alþingis um stöðu mála.

Á þingfundi fimmtudaginn 29. maí sl. var fundum Alþingis frestað á grundvelli 1. mgr. 23. gr. stjórnarskrárinnar með ákvörðun forseta Íslands og samþykki Alþingis til 2. september nk. Það var gert í samræmi við nýmæli þingskapa, sem tóku gildi 1. janúar 2008, að hafa þing- og nefndarfundi í september til að færi gæfist á að ljúka umfjöllun og afgreiðslu þingmála áður en nýtt þing er sett í októberbyrjun, svo og til að skapa skilyrði til þess fyrr en áður hefur verið að efna til almennra stjórnmálaumræðna eftir sumarhlé þingsins. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis mun þingið starfa tvær fyrstu vikurnar í september og gefst þingmönnum þá færi á taka þau mál til umfjöllunar sem á þeim brennur. 

Þó að þingfundum hafi verið frestað geta nefndir haldið áfram störfum. Samkvæmt hinum nýju þingsköpum skal þó ekki boða til nefndarfunda í sumarhléi frá 1. júlí til 10. ágúst nema brýn nauðsyn krefji. Það er jafnan á forræði nefndar en ekki forseta Alþingis að ákveða hvort fundur skuli boðaður í sumarhléi. 

Í 2. mgr. 23. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að hafi þingi verið frestað geti forseti lýðveldisins, með atbeina forsætisráðherra, eigi síður kvatt Alþingi saman til funda ef nauðsyn ber til. Það er honum enn fremur skylt að gera ef ósk berst um það frá meiri hluta þingmanna.

Samkvæmt þessu, og með hliðsjón af samþykkt þingsins sjálfs frá því í lok maí sl., er það ekki á valdi forseta Alþingis að hlutast til um að þing verði kvatt saman á ný til að ræða stöðuna í efnahags- og atvinnumálum eins og lagt er til í ályktun þingflokksins. Aðeins forseti lýðveldisins, eftir ósk og með atbeina forsætisráðherra, hefur vald til þess, auk meiri hluta alþingismanna. 

Með góðum kveðjum,

Sturla Böðvarsson,
forseti Alþingis.