Tilkynningar

Kynning á nýjum húsgögnum í Alþingishúsinu 27. apríl 2007 kl. 15.00

26.4.2007

Forseti Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, kynnir ný húsgögn sem tekin verða í notkun á morgun í Alþingishúsinu. Húsgögnin eru ný íslensk hönnun. Athöfnin hefst í efrideildarsal kl. 15.00 og síðan verður gengið um Alþingishúsið og húsgögnin skoðuð í fylgd hönnuða og framleiðenda húsgagnanna.

Endurnýjun húsgagna í Alþingishúsinu er liður í þeim gagngeru endurbótum á Alþingishúsinu sem staðið hafa síðan 2003 en veigamestu þáttum þeirra lauk haustið 2005. Leitað var til þriggja íslenskra húsgagnahönnuða um tillögur að nýjum húsgögnum fyrir 1. og 2. hæð í Alþingishúsinu, en ákveðið var að bíða með endurnýjun húsgagna í þingsal um sinn.

Forsætisnefnd Alþingis samþykkti í september 2005, að fenginni tillögu matsnefndar, að samið yrði við Leó Jóhannsson húsgagnahönnuð um nánari útfærslur, annars vegar á hægindastól og hins vegar fundarborðum. Honum var svo falið að hanna fleiri húsgögn fyrir Alþingishúsið, m.a. fundarstóla, húsgögn á skrifstofu forseta Alþingis og sófa og borð fyrir efrideildarsalinn sem nú er notaður sem setustofa og móttökusalur.

Húsgögnin eru öll úr eik og stólarnir eru klæddir leðri. Litir á áklæði taka mið af litum í Alþingishúsinu sem allir eru upprunalegir. Á hluta borðanna eru glerplötur með myndskreytingum sem eru vísun í Lögréttu og goða sem þar áttu sæti.

Framundan er að endurnýja lýsingu í Alþingishúsinu og hefur Leó Jóhannsson verið fenginn til verksins í samstarfi við sænska ljósahönnuðinn Bengt Kjällgren.

Hönnuður húsgagna:
Leó Jóhannsson, lektor við Háskólann í Linköping, deildarstjóri í Carl Malmsten Centrum för Träteknik & Design í Stokkhólmi.


Aðrir hönnuðir/arkitektar:
Batteríið ehf., arkitektar.
Þorsteinn Gunnarsson arkitekt.

Aðalframleiðandi húsgagna:
Á. Guðmundsson ehf.

Undirverktakar: 
Trésmiðjan Grein ehf.
Stáliðjan.
Húsgagnaverksmiðjan Gärsnäs í Svíþjóð.
Tärnsjö Garveri AB í Svíþjóð.
Glerverksmiðjan Gemax í Svíþjóð.
Vinnustofa Atla Hilmarssonar.
Merking ehf.