Tilkynningar

Skýrsla rannsóknarnefndar um starfsemi Íbúðalánasjóðs afhent

2.7.2013

Rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl., sem var skipuð í september 2011 á grundvelli þingsályktunar frá 17. desember 2010, afhenti forseta Alþingis skýrslu sína þriðjudaginn 2. júlí kl. 13 í efrideildarsalnum í Alþingishúsinu.

Opnað var fyrir aðgang að skýrslunni á vef Alþingis 2. júlí kl. 14 og er vefútgáfan aðgengileg hér: Vefútgáfa skýrslunnar. Vefútgáfan er aðalútgáfa skýrslunnar.

Rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl. hélt fréttamannafund þriðjudaginn 2. júlí kl. 14 í Oddfellowhúsinu, Vonarstræti 10.
Kynntar voru niðurstöður sjálfstæðrar, óháðrar rannsóknar nefndarinnar varðandi Íbúðalánasjóð og áhrif sem ákvarðanir um rekstur hans hafa haft eftir því sem þingsályktunin mælti fyrir um. Kynningarefni.

Formaður nefndar um rannsókn á Íbúðalánasjóði er Sigurður Hallur Stefánsson, fyrrverandi héraðsdómari. Með honum í nefndinni eru Kirstín Flygenring hagfræðingur og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri.

Almenn umræða á Alþingi um skýrsluna hefst svo á þingfundi, miðvikudaginn 3. júlí.