Tilkynningar

Breyting á skipan rannsóknarnefndar um sparisjóðina

29.9.2012

Forseti Alþingis féllst hinn 20. september sl. á ósk Sigríðar Ingvarsdóttur héraðsdómara frá 5. september sl. um lausn frá starfi formanns rannsóknarnefndar um sparisjóðina. Sigríður hefur snúið til fyrri starfa sem héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Á fundi forsætisnefndar Alþingis í dag greindi forseti Alþingis jafnframt frá því að hann hefði skipað Hrannar Má S. Hafberg, lögfræðing, formann nefndarinnar.

Hrannar lauk meistaraprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands í febrúar 2008. Auk þess að hafa verið settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og starfað við dómstóla í fjögur ár hefur Hrannar sinnt kennslu við lagadeild Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Hrannar hefur að undanförnu starfað fyrir rannsóknarnefnd um sparisjóðina.