Tilkynningar

Kynningarvefur um þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012

26.9.2012

Kynningarvefur um þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október nk., um tillögur stjórnlagaráðs og tengt efni, hefur verið opnaður. Slóðin er www.thjodaratkvaedi.is.

Á vefnum er að finna margvíslegt efni er lýtur að þjóðaratkvæðagreiðslunni sem ætlað er að auðvelda kjósanda að taka upplýsta afstöðu til þeirra sex spurninga sem finna má á kjörseðlinum. Þar er að finna umfjöllun um spurningarnar, upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og rakin forsaga málsins. Þá er tillögum stjórnlagaráðs og texta stjórnarskrár Íslands stillt upp í samliggjandi dálkum þannig að hægt er að bera saman tillögur ráðsins og ákvæði stjórnarskrárinnar. Einnig eru tengingar í fjölmarga vefi sem geta veitt nánari upplýsingar um efnið eða eru vettvangur umræðu.

Til að auðvelda heyrnarskertum og sjóndöprum að kynna sér efni vefsins er aðgangur að upplestri og táknmálsþýðingu á öllu meginefninu. Sama efni er aðgengilegt á ensku auk þess sem birtar eru enskar þýðingar á tillögum stjórnlagaráðs og texta íslensku stjórnarskrárinnar.

Prentaður kynningarbæklingur verður sendur í pósti inn á hvert heimili landsins. Gert er ráð fyrir að honum verði dreift 1.-2. október nk. Bæklingurinn er aðgengilegur á forsíðu kynningarvefsins í pdf-útgáfu.

Kynningarvefurinn er í umsjón Lagastofnunar Háskóla Íslands og er efni hans unnið af stofnuninni að beiðni skrifstofu Alþingis. Vefurinn er settur upp af Athygli ehf.