Tilkynningar

Ræða forseta Alþingis

19.1.2016

Háttvirtir alþingismenn.

Nú þegar Alþingi er saman komið á nýju ári hvarflar hugurinn til haustþingsins. Því verður ekki á móti mælt að ýmislegt gekk þar öðruvísi fyrir sig en æskilegt hefði verið, – sérstaklega við lok þess þinghalds. Mjög er nú kallað eftir því, jafnt innan þings og utan, að við hér á Alþingi gerum ýmsar breytingar á starfsháttum okkar og verklagi.  Að þessu hljótum við þingmenn að hyggja á vetrar- og vorþinginu og hlusta þannig vel eftir þeim gagnrýnisröddum sem heyrst hafa. Það er minn ásetningur vinna að því í samvinnu við forustu þingflokkanna.

Ég vil ég láta í ljós ánægju mína með að Alþingi hefur með sérstakri fjárveitingu á fjárlögum fyrir þetta ár tekið ákvörðun um að hefja undirbúning að því að reisa skrifstofubyggingu á Alþingisreit. Þeirri byggingu er ætlað að leysa af hólmi það dreifða húsnæði sem Alþingi leigir fyrir skrifstofur þingmanna og nefndastarfið. Það er ótvíræður kostur fyrir störf Alþingis að allt húsnæði þess sé í samtengdum byggingum á einum stað. Þá skiptir ekki síður máli hin fjárhagslega hagkvæmni þessa fyrirkomulags enda er það mat sérfræðinga að hagstæðara sé fyrir Alþingi að byggja en að leigja húsnæði á dýrustu reitum Reykjavíkurborgar. Á fundi forsætisnefndar í gær var samþykkt frumathugun vegna hins fyrirhugaða húsnæðis sem unnin hefur verið í nánu samstarfi við nefndina og byggist á ítarlegri þarfagreiningu.

Það er einnig ánægjulegt að geta þess að  á þessu ári standa vonir til að unnt verði að ljúka endurbótum á húsinu Skjaldbreið. Með þeirri framkvæmd verður langt komið að skapa heillega götumynd við Kirkjustræti sem hefur mikla þýðingu fyrir ásýnd Alþingisreitsins og miðborgarinnar.

Ég vil einnig greina frá því við þetta tækifæri að framkvæmdastjóri nefndar um 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna, Ásta R. Jóhannesdóttir, hefur afhent mér skýrslu um störf nefndarinnar, en nefndin lauk störfum við lok afmælisársins. Skýrslan verður birt á vef Alþingis. Hún veitir góða innsýn í það mikla starf sem hundruð einstaklinga um land allt inntu af hendi til að gera afmælisárið að eftirminnilegum viðburði. Segja má að kosningarréttarafmælið hafi verið einstakt að því leyti að þess var minnst með ýmsu móti allt síðast liðið ár og um land allt með þátttöku fjölda fólks, þó hápunkturinn hafi auðvitað verið þann 19. júní.

Í skoðanakönnun sem gerð var að frumkvæði afmælisnefndarinnar kom fram að viðburðir sem tengdust afmælisárinu náðu mjög vel til almennings. Er þetta til marks um að vel tókst til. Það er til dæmis áhugavert að 52% landsmanna horfðu á sjónvarpsþættina Öldina hennar sem voru sýndir í Ríkissjónvarpinu.

Fyrir hönd Alþingis vil þakka öllum sem að þessu starfi komu fyrir þeirra framlag.

Ég vil ítreka þakkir mína til þingmanna fyrir samstarfið á liðnu ári og ber þá von í brjósti að okkur megi auðnast að halda svo á málum á vetrar- og vorþinginu að Alþingi verði sómi af.