Tilkynningar

Rakarastofuráðstefna Alþingis

7.2.2018

Haldin verður „rakarastofuráðstefna“ á Alþingi , föstudaginn 9. febrúar 2018, þar sem öllum þingmönnum og ráðherrum er boðið til þátttöku. Aðdraganda viðburðarins má rekja til áskorunar karlþingmanna til forsætisnefndar Alþingis með hvatningu um að haldin væri ráðstefna sem gæfi körlum og konum á þingi tækifæri til að eiga opinskáar samræður í ljósi umræðna um kynferðisofbeldi og áreitni innan stjórnmálanna. 
 

Steingrímur J. Sigfússon nefndi þessa áskorun í ávarpi sínu er hann var kjörinn forseti Alþingis og lýsti vilja til að efna til þessa viðburðar snemma á nýja árinu. Ráðstefnan er liður í viðbrögðum þingmanna og þingsins við vakningu um kynbundið misrétti, áreitni og ofbeldi sem konur sæta innan stjórnmála, jafnt og annars staðar, og gengið hefur undir nöfnunum #ískuggavaldsins og #MeToo. Rakarastofuráðstefnan er haldin í góðu samstarfi við UN Women á Íslandi og utanríkisráðuneytið.

Ísland hefur staðið fyrir nokkrum fjölda rakarastofuráðstefna (e. Barbershop Conference) á alþjóðlegum vettvangi við góðan orðstír og hafa yfir 2000 manns sótt slíkar ráðstefnur á undanförnum misserum. Tengingin við rakarastofur á rætur sínar að rekja til samstarfs við Súrínam þar sem karlar eyða löngum stundum á rakarastofunni og ræða við aðra karla um allt milli himins og jarðar, líkt og íslenskir karlar gera e.t.v. frekar í búningsklefum og heitum pottum. Rakarastofuráðstefnur miða því að því að skapa körlum svigrúm til að ræða jafnréttismál á sínum eigin forsendum, veita þeim tækifæri til að fræðast um ávinning karla og kvenna af auknu jafnrétti og virkja þá til þátttöku til jafns við konur í baráttunni fyrir auknu jafnrétti og bættri stöðu bæði karla og kvenna í samfélaginu.

Rakarastofuráðstefna Alþingis er sú fyrsta sem haldin er í þjóðþingi, svo vitað sé, en fyrirhugað er að halda rakarastofuráðstefnu í Evrópuráðsþinginu með vorinu. Viðburðurinn verður opinn fjölmiðlum frá kl. 12.30.

Nánari upplýsingar um dagskrá rakarastofuráðstefnu Alþingis .

Fyrirlesarar og fundarstjórn á rakarastofuráðstefnu Alþingis.

Tengiliður fjölmiðlamanna er Solveig K. Jónsdóttir, forstöðumaður upplýsinga- og útgáfusviðs Alþingis (solveig@althingi.is).