Tilkynningar

Samningur um Jafnréttisvísi til að fylgja eftir könnun um starfshætti og vinnustaðamenningu á Alþingi

18.9.2020

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri, hafa undirritað samstarfssamning við forsvarsfólk Jafnréttisvísis um eftirfylgni könnunar um starfshætti og vinnustaðamenningu á Alþingi.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annaðist framkvæmd könnunar fyrir hönd Alþingis í ársbyrjun, með sérstakri áherslu á einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni. Í kjölfarið var skipuð jafnréttisnefnd Alþingis til að vinna frekar úr og fylgja eftir niðurstöðum könnunarinnar. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar þingmanna og starfsfólks, þau Guðjón S. Brjánsson, 1. varaforseti, Bryndís Haraldsdóttir, 6. varaforseti, Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri og Saga Steinþórsdóttir starfsmannastjóri. Það var niðurstaða nefndarinnar að fá utanaðkomandi sérfræðinga til liðs við Alþingi til að vinna að umbótum og leitað var tillagna og tilboða frá sjö aðilum sem höfðu þekkingu og reynslu af sambærilegum verkefnum. Niðurstaða jafnréttisnefndar var að leita samninga við ráðgjafarfyrirtækið Empower um verkefnið Jafnréttisvísir. Að fyrirtækinu standa Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, sem þróaði og leiddi verkefnið upphaflega hjá Capacent, og Dögg Thomsen en með þeim starfar Steingrímur Sigurgeirsson og fleiri ráðgjafar frá Empower.

Jafnréttisvísir leggur áherslu á heildstæða nálgun á stöðu jafnréttismála hjá stofnunum og fyrirtækjum þar sem praktískar leiðir eru notaðar til að breyta menningu, samskiptum og vinnulagi. Jafnréttisvísir er því stefnumótun og vitundarvakning í jafnréttismálum sem ætlað er að meta stöðu jafnréttismála út frá ítarlegri greiningarvinnu, koma á breytingaverkefnum og innleiða þau. Verkefnið hefur verið innleitt hjá fyrirtækjum og opinberum stofnunum. 

Nánari upplýsingar um Jafnréttisvísi

Jafnrettisvisir_undirritun
Við undirritun samningsins um Jafnréttisvísi: Saga Steinþórsdóttir starfsmannastjóri, Þórey Vilhjálmsdóttir, eigandi og ráðgjafi hjá Empower, Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri, Guðjón S. Brjánsson, 1. varaforseti, Dögg Thomsen, eigandi og ráðgjafi hjá Empower, og Steingrímur Sigurgeirsson, ráðgjafi hjá Empower.