Tilkynningar

Samningur við Hið íslenska bókmenntafélag undirritaður

10.9.2018

Samningur um samstarfsverkefni Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands var undirritaður 10. september af skrifstofustjóra Alþingis og forseta Hins íslenska bókmenntafélags. Viðstaddir áritun voru forseti Alþingis og menntamálaráðherra, sem árituðu samkomulagið.

Í þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 17. júlí 2018 ályktaði Alþingi að ganga til samstarfs við Hið íslenska bókmenntafélag um útgáfu tveggja ritverka: Verks um Þingvelli í íslenskri myndlist og nýs yfirlitsverks um sögu íslenskra bókmennta frá landnámi til 21. aldar. Alþingi ályktaði enn fremur að styðja útgáfuna fjárhagslega með árlegum fjárveitingum þar til verkefnunum er lokið, á grundvelli samningsins sem nú hefur verið undirritaður á milli forsætisnefndar fyrir hönd Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags og mennta- og menningarmálaráðuneytið staðfesti. 

Í ritnefnd verksins Þingvellir í íslenskri myndlist eru eftirtaldir: Sverrir Kristinsson, tilnefndur af Híb, Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, og Kristján Steingrímur Jónsson, safnstjóri Listasafns Háskóla Íslands. Listfræðilegur ráðunautur og höfundur inngangs verður Aðalsteinn Ingólfsson.

Í ritnefnd verksins Íslenskar bókmenntir – frá landnámi til líðandi stundar eru eftirtaldir: Ármann Jakobsson prófessor, tilnefndur af Híb, Sveinn Yngvi Egilsson prófessor, Aðalheiður Guðmundsdóttir prófessor, Margrét Eggertsdóttir rannsóknaprófessor, Jón Yngvi Jóhannsson lektor og Ásta Benediktsdóttir.

Undirritun_Hid_isl_bokmenntafelag