Tilkynningar

Samúðarkveðjur til frönsku þjóðarinnar frá Alþingi

16.11.2015

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, greindi frá því við upphaf þingfundar 16. nóvember að hann hefði fyrir hönd Alþingis sent Claude Bartolone, forseta fulltrúadeildar franska þingsins, Gérard Larcher, forseta öldungadeildar franska þingsins, og Lionel Tardy, formanni vinahóps Frakklands og Íslands í franska þinginu, bréf með samúðarkveðjum.

Ávarp forseta Alþingis við upphaf þingfundar 16. nóvember:

Háttvirtir alþingismenn. Við erum öll harmi slegin eftir atburðina í París síðastliðinn föstudag þar sem 129 saklausir borgarar létust og hundruð særðust, sumir mjög alvarlega. Hugur okkar er hjá öllu því fólki sem á nú um sárt að binda eftir þessar hroðalegu árásir. Hryðjuverkin í París voru árásir á saklaust fólk en þau eru líka atlaga að þeim vestrænu gildum mannúðar, frjálslyndis og umburðarlyndis sem eru hornsteinar samfélags okkar. Sú atlaga má aldrei takast.

Í morgun sendi ég bréf fyrir hönd Alþingis með samúðarkveðjum til Claudes Bartolones, forseta fulltrúadeildar franska þingsins, Gérards Larchers, forseta öldungadeildar franska þingsins, og Lionels Tardys, formanns vinahóps Frakklands og Íslands í franska þinginu.

Bréfin eru svohljóðandi:

„Ég vil, fyrir hönd Alþingis – þjóðþings Íslendinga, votta frönsku þjóðinni og aðstandendum fórnarlamba voðaverkanna í París síðastliðinn föstudag samúð mína. Árásin var fólskulegt tilræði við þau grundvallarréttindi sem við byggjum lýðræðissamfélög okkar á og fordæmi ég tilræðismennina og þá hugmyndafræði sem liggur að baki voðaverkunum. Hugur minn og þingheims alls er með þeim sem eiga um sárt að binda í kjölfar árásarinnar.“

Ég vil geta þess að samkomulag er um það milli þingflokkanna að umræður um þessa atburði, hryðjuverkin í París, fari fram á Alþingi á morgun.