Tilkynningar

Skúli Magnússon dómstjóri kjörinn umboðsmaður Alþingis

26.4.2021

Alþingi kaus í dag Skúla Magnússon, dómstjóra við Héraðsdóm Reykjavíkur, umboðsmann Alþingis til næstu fjögurra ára. Skúli var kjörinn umboðsmaður með 49 atkvæðum. Hann tekur við embætti 1. maí nk.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kýs Alþingi umboðsmann til fjögurra ára í senn. Það er forsætisnefnd Alþingis sem gerir tillögu til þingsins um einstakling til að gegna embætti umboðsmanns Alþingis. Á fundi forsætisnefndar í morgun var einróma samþykkt að gera tillögu um Skúla Magnússon.

Það var þriggja manna undirnefnd forsætisnefndar, sem skipuð var Steingrími J. Sigfússyni, Guðjóni S. Brjánssyni og Bryndísi Haraldsdóttur, sem lagði til við forsætisnefnd að gerð yrði tillaga til Alþingis um Skúla Magnússon sem umboðsmann Alþingis. Undirnefnd forsætisnefndar naut ráðgjafar nefndar þriggja sérfræðinga, en hana skipuðu Helgi I. Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem var skipaður formaður, Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri Deloitte. Báðar nefndirnar starfa samkvæmt reglum sem forsætisnefnd hefur sett um undirbúning fyrir kosningu einstaklings til embættis ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis

Fjórir einstaklingar gáfu kost á sér í embætti umboðsmanns. Það voru Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari, Ástráður Haraldsson héraðsdómari, Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari og Skúli Magnússon dómstjóri. Áslaug tilkynnti 6. apríl sl. að hún hefði ákveðið að gefa ekki kost á sér í embætti umboðsmanns Alþingis.

Að loknu kjöri Skúla Magnússonar þakkaði forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, Tryggva Gunnarssyni fyrir farsæl störf sem umboðsmaður Alþingis í rúm 22 ár, en Tryggvi hefur gegnt embætti umboðsmanns síðan 1. nóvember 1998.

Skuli-MagnussonSkúli Magnússon, nýkjörinn umboðsmaður Alþingis.