Tilkynningar

Þátttaka forseta danska þjóðþingsins í hátíðarhöldum í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins

19.7.2018

Fréttatilkynning frá forseta Alþingis:

Nokkur umræða hefur orðið í fjölmiðlum, ekki síst dönskum, um heimsókn Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, til Íslands í tilefni af fullveldisafmælinu.

Forseti Alþingis hefur um nokkurra mánaða skeið undirbúið þingfundinn á Þingvöllum, og rætt undirbúninginn jöfnum höndum við forsætisnefnd og formenn þingflokkanna. Sjálfsagt þótti frá byrjun, í ljósi tilefnisins, að forseti danska þingsins yrði í sérstöku hlutverki á þessum hátíðarfundi. Danska þingforsetanum var því boðið til landsins sem fulltrúa gagnaðila að fullveldissamningunum.

Forseti Alþingis harmar að heimsókn danska þingforsetans hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin og leyfir sér að trúa því að það sé minnihlutasjónarmið að viðeigandi sé að sýna danska þingforsetanum óvirðingu þegar hann sækir okkur heim og kemur fram fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar.