Tilkynningar

Þórunn Egilsdóttir alþingismaður látin

11.7.2021

Þórunn Egilsdóttir alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknarflokksins lést 9. júlí. Hér á eftir fara kveðjuorð forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar:

Þær sorgarfréttir bárust í gær að Þórunn Egilsdóttir, félagi okkar og vinur hér á þingi, væri látin. Þessar fréttir voru óvæntar þó svo við höfum öll fylgst með hetjulegri baráttu hennar við sjúkdóminn sem nú hefur lagt hana að velli langt fyrir aldur fram.

Hún var baráttuglöð og bar sig vel þegar hún kom og heilsaði upp á okkur undir lok þinghaldsins í vor, hafandi þá tekið að sér að flytja ávarp þingkvenna á atburði á vegum heimsþings kvenleiðtoga sem Ísland hefur fóstrað sl. fjögur ár.

Eftir á að hyggja var þetta verðugt lokaverkefni fyrir Þórunni, hún var baráttukona í margföldum skilningi þess orðs, sauðfjárbóndi efst úr Vesturdal í Vopnafirði sem með virkri þátttöku í sínu nærsamfélagi vann sér inn orðstír til að setjast á þing og starfa þar með reisn svo lengi sem henni entist heilsa og aldur til.

Hér á þingi minnumst við hennar sérstaklega sem félaga í forsætisnefnd Alþingis og sem þingflokksformanns. Í báðum tilvikum var jafn gott að vinna með Þórunni, sem ver einstaklega traust og yfirveguð á hverju sem gekk.

Alþingi saknar vinar í stað þar sem er Þórunn Egilsdóttir. Við kveðjum hana með söknuð í hjarta, vottum eiginmanni hennar, börnum, fjölskyldu og nærsamfélagi samúð okkar allra, þingmanna og starfsfólks Alþingis.

Þórunnar Egilsdóttur verður minnst með hefðbundnum hætti á þingfundi þegar þing kemur saman að nýju.


Steingrímur J. Sigfússon,
forseti Alþingis