Tilkynningar

Tilboð opnuð í jarðvegsframkvæmdir vegna nýbyggingar á Alþingisreit

22.10.2019

Tilboð í jarðvegsframkvæmdir vegna nýbyggingar Alþingis við Vonarstræti voru opnuð hjá Ríkiskaupum í dag. Verkið var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu 12. september sl. og bárust eftirtalin fjögur tilboð frá innlendum aðilum: 

Urð og grjót ehf. kr. 50.975.000

Ístak hf. kr. 55.241.415

Eykt ehf. kr. 65.951.232

Íslenskir aðalverktakar hf., kr. 77.143.846

Þrjú tilboðanna voru innan kostnaðaráætlunar. Tilboðin verða yfirfarin af Framkvæmdasýslu ríkisins og í framhaldinu verður ákvörðun tekin um hvaða tilboði verður tekið. Áætlað er að jarðvegsframkvæmdir hefjist í nóvember.

Nú er verið að fara yfir tilboð á vinnu við að setja steinklæðningu á ytra byrði byggingarinnar. Útboð fyrir vinnu við aðalbygginguna og tengiganga verða auglýst í júní 2020 og er gert ráð fyrir að uppsteypa byggingarinnar hefjist í september sama ár. Verklok eru áætluð í mars 2023.

Alþingisreiturinn svonefndi er á milli Kirkjustrætis, Vonarstrætis og Tjarnargötu. Í nýbyggingunni verða m.a. skrifstofur þingmanna, aðstaða þingflokka, nefnda og starfsmanna þeirra. Hingað til hefur sú starfsemi sem flyst í nýja húsið að mestu verið í leiguhúsnæði við Austurstræti. Byggingin verður um 6.000 fermetrar og í fjármálaáætlun eru áætlaðir 4,4 milljarðar króna til verkefnisins í heild.