Tilkynningar

Tilkynning um kosningu umboðsmanns Alþingis

25.2.2021

Forsætisnefnd Alþingis mun fyrir lok aprílmánaðar nk. gera tillögu til Alþingis um einstakling til að gegna embætti umboðsmanns Alþingis og verður hann kjörinn á þingfundi, sbr. 1. gr. l. nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Alþingi kýs umboðsmann Alþingis til fjögurra ára í senn.

Umboðsmaður Alþingis skal uppfylla skilyrði laga til að mega gegna embætti hæstaréttardómara og má ekki vera alþingismaður. Þeir sem áhuga kunna að hafa á að gegna embættinu, og uppfylla áðurgreind skilyrði, skulu senda Alþingi erindi þar um ásamt ítarlegum upplýsingum um menntun og fyrri störf. Einnig geta þeir sem vilja koma með ábendingar um einstaklinga í embættið komið slíku á framfæri við Alþingi. Erindi skulu berast Alþingi með rafrænum hætti á netfangið kosningumbodsmanns@althingi.is fyrir miðnætti fimmtudaginn 18. mars nk.

Umboðsmaður Alþingis starfar á vegum Alþingis. Hann er trúnaðarmaður þess og hefur í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og skal tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Umboðsmaður Alþingis er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi.

Forsætisnefnd Alþingis ákveður samkvæmt lögum laun umboðsmanns Alþingis, en að öðru leyti skal umboðsmaður njóta kjara hæstaréttardómara.

Forsætisnefnd Alþingis