Tilkynningar

Tryggvi Gunnarsson fær lausn frá embætti umboðsmanns Alþingis

25.2.2021

Forsætisnefnd Alþings hefur veitt Tryggva Gunnarssyni lausn frá embætti umboðsmanns Alþingis frá og með 1. maí nk. Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, tilkynnti þetta við upphaf þingfundar í dag og notaði tækifærið til að þakka Tryggva Gunnarssyni fyrir störf hans í embætti umboðsmanns Alþingis síðastliðna rúma tvo áratugi:

„Það er lögum samkvæmt hlutverk forsætisnefndar Alþingis að gera tillögu til Alþingis um einstakling í embætti umboðsmanns Alþingis. Forsætisnefnd hefur hafið vinnu við það ferli og hefur í því skyni skipað þriggja manna undirnefnd úr sínum hópi sem mun annast undirbúning tillögugerðar til forsætisnefndar um tilnefningu einstaklings við kosningu í embætti umboðsmanns Alþingis. Undirnefnd forsætisnefndar mun jafnframt á næstu dögum skipa nefnd þriggja sérfræðinga sem verður undirnefndinni og forsætisnefnd til ráðgjafar.“