Tilkynningar

Tvö þingmál í tilefni fullveldisafmælisins

13.7.2018

Alþingi kemur saman til funda í næstu viku í tilefni af 100 ára fullveldis-afmælinu. Þingfundur hefst kl. 13.30 þriðjudaginn 17. júlí. Daginn eftir, 18. júlí, verður hátíðarfundur Alþingis að Lögbergi á Þingvöllum og hefst sá fundur kl. 14.

Fyrr í morgun var útbýtt á vef þingsins tveimur þingmálum, tillögu formanna stjórnmálaflokkanna um verkefni í þágu barna og ungmenna, og um rannsóknir er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins og nýtt hafrannsóknaskip. Jafnframt var útbýtt tillögu forsætisnefndar um útgáfu tveggja rita í samvinnu við Hið íslenska bókmenntafélag, um Þingvelli í íslenskri myndlist og um bókmenntasögu Íslands.

Þingfundir á þriðjudag verða tveir. Á fyrri fundinum verður mælt fyrir báðum tillögunum (fyrri umræða), en á seinni fundinum verður tillaga forsætisnefndar afgreidd, svo og samþykkt um hlé á þingstörfum frá 18. júlí fram til annars þriðjudags í september (11. sept.). Reiknað er með að þingfundum ljúki fyrir kl. 16.

Hátíðarfundurinn á Þingvöllum hefst kl. 14 að Lögbergi. Á þeim fundi fer fram síðari umræða um tillögu formanna flokkanna og munu þeir allir átta tala á hátíðarfundinum. Tillagan verður afgreidd þar með atkvæðagreiðslu. Reiknað er með að hátíðarfundinum ljúki fyrir kl. 16.