Tilkynningar

Umsóknir um styrk til að rita meistaraprófsritgerð er varðar Alþingi

8.10.2018

Alþingi auglýsir styrk til að rita meistaraprófsritgerð er varðar Alþingi. Styrknum er ætlað að stuðla að rannsóknum á hlutverki Alþingis í lýðræðisskipan Íslands, verkefnum þingsins og starfsemi þess almennt. Rannsóknin er ekki bundin við tilteknar fræðigreinar.

Styrkur er veittur til einstaklinga sem vinna að lokaverkefni til meistaranáms, að lágmarki 30 ETCS einingar, við íslenska eða erlenda háskóla.

Styrkurinn nemur 400.000 krónum.

Styrkur er greiddur út í tvennu lagi. Helmingur er greiddur út þegar rannsóknaráætlun verkefnisins hefur verið samþykkt af leiðbeinanda og lokagreiðsla fer fram þegar verkefni hefur verið skilað. 

Í umsókn um styrk skal eftirfarandi koma fram:

a. Nafn, heimilisfang og tölvupóstfang umsækjanda.

b. Lýsing á viðfangsefni rannsóknarinnar og á hvern hátt hún er fallin til að varpa ljósi á umfjöllunarefnið (200-500 orð).

c. Tímaáætlun um framvindu.

Umsókn skal fylgja ferilskrá umsækjanda og samþykki leiðbeinanda fyrir rannsókninni sem lokaverkefni.

Gert er ráð fyrir að Alþingi fái kynningu á niðurstöðum rannsóknarinnar auk prentaðs eintaks af henni. 

Umsóknarfrestur er til 29. október 2018. Umsókn skal send á netfangið heidrunp@althingi.is.