Tilkynningar

Útgáfa bókar sem byggist á skýrslu þingsins um fátæktarmál 1901–1905

27.5.2016

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, fékk í dag afhent fyrsta eintakið af bókinni Fátækt og fúlga. Þurfalingarnir 1902, eftir Jón Ólaf Ísberg, sérfræðing á upplýsinga- og útgáfusviði Alþingis, og Sigurð Gylfa Magnússon, prófessor í menningarsögu við Háskóla Íslands.  Bókin byggist á skýrslu þingsins um fátæktarmál 1901–1905.

Bókin er unnin af Miðstöð einsögurannsókna við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og gefin út af Háskólaútgáfunni. Alþingi styrkti útgáfu bókarinnar og forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, ritar aðfaraorð.

Árið 1902 var að frumkvæði milliþinganefndar í fátæktarmálum, sem starfaði á árunum 1901–1905, tekin saman skrá um alla þá sem þáðu af sveit. Sú gagnasöfnun var liður í undirbúningi nefndarinnar við endurskoðun á fátæktarlöggjöfinni. Gögn nefndarinnar eru geymd í skjalasafni Alþingis. Í skránni eru meðal annars birti nöfn og heimilisföng þurfalinganna og ástæður þess að þeir þiggja af sveit að mati hreppstjórnarmanna. Í bókinni eru, auk skrárinnar, kafli um starf nefndarinnar, ítarleg umfjöllun um félagssögu fátæktar á Íslandi á þessum tíma og loks er endurprentuð skýrsla eins nefndarmannsins, Guðjóns Guðlaugssonar á Ljúfustöðum, þingmanns Strandamanna, en hún varpar athyglisverðu ljósi á hvernig margir þingmenn þessa tíma litu á fátæktarmálin.

Bók um fátæktarmál afhent forseta Alþingis