Tilkynningar

Úthlutun þingsæta á fundi landskjörstjórnar

1.10.2021

Landskjörstjórn kom saman til fundar í dag, föstudaginn 1. október, til að úthluta þingsætum á grundvelli kosningaúrslita í kjördæmum eftir almennar alþingiskosningar sem fram fóru 25. september sl. Úrslit og úthlutun þingsæta er birt á vef landskjörstjórnar.

Úthlutun kjördæmissæta á framboðslista fer fram samkvæmt reikniaðferð sem lýst er í 107. gr. kosningalaga. Þá fer úthlutun jöfnunarsæta á stjórnmálasamtök og framboðslista eftir reikniaðferð samkvæmt 108. gr. laganna. Því næst er fundin út atkvæðatala frambjóðenda á framboðslistunum í samræmi við 110. gr. laganna og á grundvelli hennar er skorið úr um sætaskipan frambjóðanda á hverjum lista. Landkjörstjórn lætur hinum kjörnu þingmönnum og jafnmörgum varaþingmönnum kjörbréf í té í samræmi við niðurstöðu sína um úthlutun þingsæta og tilkynnir dómsmálaráðuneytinu um úrslit kosninganna ásamt því sem hún sendir nöfn hinna kjörnu þingmanna til birtingar í Stjórnartíðindum.

Komi upp ágreiningur milli landskjörstjórnar og umboðsmanna stjórnmálasamtaka um felldan úrskurð eiga umboðsmenn rétt á að fá bókaðan ágreining sinn í gerðabók landskjörstjórnar. Hún sendir dómsmálaráðuneytinu eftirrit af gerðabók sinni um úthlutun þingsæta, svo og skýrslur þær og skilríki frá yfirkjörstjórnum sem ágreiningur kann að vera um. Alþingi á síðan endanlegt úrskurðarvald um gildi kosninganna.