Tilkynningar

Vefur Alþingis í snjallvefsviðmóti

13.3.2015

Vefur Alþingis birtist nú í snjallvefsviðmóti og lagast því að skjástærð þess tækis sem hann er skoðaður í.

Helstu breytingar eru að öðru leyti þær að meginflokkum á forsíðu er fækkað og leit á vefnum bætt.

Eins og áður er aðaláhersla lögð á að birta upplýsingar um þingstörfin og veita aðgang að lögum og opinberum gögnum um störf Alþingis.

Á forsíðu vefsins er dagskrá þingfunda birt. Þar eru einnig upplýsingar um aðra fundi og heimsóknir til þingsins. Einnig eru þar tilkynningar og listar yfir nýsamþykkt lög og ályktanir og nýjustu þingskjöl. Bein útsending frá fundum birtist nú á forsíðu vefsins. Eins og áður er hægt að slá inn laganúmer á forsíðu og komast þannig beint í lög í lagasafni.

Í leitarglugga í lagasafni er byrjað á því að leita í lagaheitum og númerum en með því að velja fulla textaleit er leitað í öllum texta lagasafnsins. Þegar komið er inn á einstök lög er hægt að fletta í mismunandi útgáfum af þeim lögum.

Lögð er áhersla á gott aðgengi að ýmiss konar yfirlitum yfir störf á yfirstandandi þingi og fyrri þingum. Meðal annars eru listar yfir þingmálin, stöðu mála á þinginu, samþykkt lög, þingfundi, ræður, upptökur af fundum, samantektir um þingmál og efnisflokkuð mál. Jafnframt er boðið upp á leitarvalmyndir til að leita eftir þingmálum, þingskjölum, ræðum, umsögnum, atkvæðagreiðslum og fleiru. Gríðarlegt magn efnis er á vef Alþingis og gott er að hafa í huga að eftir því sem leit er þrengd meira því nákvæmari leitarniðurstöðu má vænta, til dæmis með því að afmarka tímabil sem leitað er á, tegund máls, flytjanda og svo framvegis.

Í flýtileit á forsíðu er leitað í efni á öllum vefnum en eingöngu í þingmálum og ræðum á yfirstandandi þingi.

Á síðu hverrar fastanefndar koma nú upp þau þingmál sem nefndin hefur til umræðu og þau þingmál sem eru í umsagnarferli. Einnig er hægt að fá yfirlit yfir öll þingmál sem eru í umsagnarferli hverju sinni.

Ef notendur verða varir við hnökra í virkni vefsins eða birtingu efnis eru allar ábendingar vel þegnar á netfangið ritstjori@althingi.is