Tilkynningar

Vinnu við Þingmannagátt miðar vel áfram

11.5.2021

Hugbúnaðarfyrirtækið Prógramm vinnur nú að því að hanna svokallaða Þingmannagátt fyrir Alþingi. Þingmannagáttin er hluti af þróun stafrænnar þjónustu fyrir þingmenn þar sem öll gögn sem tengjast þingstörfum þeirra eru á einum stað. Verkinu miðar vel og er stefnt að því að frumútgáfa kerfisins verði tilbúin til notkunar að loknum kosningum í haust.

Alþingi samþykkti í fyrra sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þar var m.a. tilgreind Þingmannagátt og átti að verja 65 milljónum króna til verkefnisins. Verkið var boðið út og tilboð opnuð í nóvember sl. Tilboð bárust frá fyrirtækjunum Advania, Deloitte, Origo, Parallel ráðgjöf og Prógramm.

Matsnefnd skipuð hópi þingmanna, starfsfólki þingflokka og starfsfólki skrifstofu Alþingis fór yfir úrlausnir á notkunardæmum sem voru hluti af tilboðum. Á grundvelli einkunnar í útboði var hugbúnaðarfyrirtækið Prógramm valið til að hanna Þingmannagáttina.

Þó að frumútgáfan verði tilbúin í haust verður kerfið í vinnslu næstu tvö árin og reglulega verða gefnar út nýjar útgáfur.

Skjaskot_minnispunktar