100 ára fullveldi 2018
1. desember 2018
PDF útgáfa af bæklingnum 100 ára fullveldi 2018
Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands var opið hús á Alþingi 1. desember 2018, þar sem gestir voru boðnir velkomnir að skoða Alþingishúsið í fylgd með þingmönnum og starfsfólki skrifstofu Alþingis. Í Skála var sett upp sýning á ljósmyndum, skjölum og völdum tilvitnunum úr umræðum á þingi um sambandslagasamninginn.
BÁÐUM ÞJÓÐUM TIL SÓMA OG GAGNS
Í lok júnímánaðar 1918 komu til Reykjavíkur fjórir danskir samningamenn til að semja við Íslendinga um nýtt fyrirkomulag á sambandi Íslands og Danmerkur. Þeir voru fulltrúar Danmerkur í sambandslaganefndinni svokölluðu en skömmu áður hafði Alþingi kosið fjóra þingmenn til að sitja í nefndinni fyrir Íslands hönd. Með þeim störfuðu að auki tveir skrifarar fyrir hvora þjóð. Alls voru því tólf manns við samningaborðið, allt karlar. Þegar þarna var komið sögu voru ekki nema þrjú ár síðan íslenskar konur fengu kosningarrétt og enn áttu eftir að líða fjögur ár þangað til fyrsta konan var kjörin á Alþingi.
Fyrsti formlegi fundur sambandslaganefndarinnar var haldinn í Alþingishúsinu 1. júlí. Fyrstu dagana gekk hvorki né rak og um tíma óttuðust menn að viðræðurnar færu út um þúfur. En 9. júlí var ákveðið að setja á fót fjögurra manna undirnefnd og reyna til þrautar að samræma sjónarmið nefndarmanna. Þá fór loks að rofa til og að lokinni snarpri samningalotu lá loks samningur á borðinu.
Alþingi lagði blessun sína yfir samkomulag sambandslaganefndarinnar á lokuðum fundi síðla dags 17. júlí 1918. Við þinglausnir í sameinuðu þingi fimmtudaginn 18. júlí, kl. 11:30 árdegis, rétt áður en sambandslagasamningurinn var undirritaður, mælti Jóhannes Jóhannesson, forseti sameinaðs þings:
„Stjórn Dana og þing hafa sýnt Íslandi það bróðurþel og þann sóma að senda hingað 4 fulltrúa til þess, með óbundnu umboði, að semja við stjórn Íslands og Alþingi, sem jafnrjettháa samningsaðilja, um samband landanna í framtíðinni. Til þessarar farar hafa Danir valið 4 af sínum vitrustu, víðsýnustu og hleypidómalausustu mönnum, enda er árangurinn af komu þeirra og samningaumleitunum orðinn sá, að þeir annars vegar og íslenska stjórnin og Alþingi hins vegar hafa orðið ásátt um frumvarp til sambandslaga milli Danmerkur og Íslands, sem gera má sjer bestu vonir um að báðar þjóðir fallist á, og er það verður að lögum, má vænta þess, að það verði báðum þjóðum til sóma og gagns, að ágreiningur sá, sem því miður svo oft hefir verið milli bræðraþjóðanna, hverfi úr sögunni, en bræðraþelið eflist og samvinnan aukist, til gagns og ánægju fyrir báðar þjóðir.“
Þingmenn, þingskrifarar og þingsveinar á fundi í neðri deild Alþingis í júlí 1918.
Sigríður Zoëga / Ljósmyndasafn Íslands
ÖLLUM GÖMLUM DEILUMÁLUM FARSÆLLEGA RÁÐIÐ TIL LYKTA
Sambandslaganefndin og skrifarar hennar á fundi í Alþingishúsinu 18. júlí 1918.
Sigríður Zoëga / Ljósmyndasafn Íslands
Í þann mund sem dönsku samningamennirnir voru að ferðbúast til að sigla heim til Hafnar með varðskipinu Islands Falk fékk Fréttastofa Íslands (Islands Telegrambureau) leyfi til að birta svohljóðandi frétt um sambandsmálið fimmtudaginn 18. júlí og sendi hana fréttastofum á Norðurlöndum:
„Samningaumleitanir þær, sem hér hafa fram farið milli dönsku sendinefndarinnar og Alþingis og íslenzku stjórnarinnar, hafa leitt til fullkomins samkomulags um frumvarp til sambandslaga fyrir hin tvö lönd í framtíðinni, og þar með ætti öllum hinum mörgu og gömlu deilumálum að vera ráðið til lykta. Frumvarpið, sem var undirskrifað í dag, hefur fengið samþykki íslenzku stjórnarinnar, og nær allir þingmenn hafa fallist á það. Þegar danska sendinefndin kemur til Kaupmannahafnar, sem sennilega verður um miðja næstu viku, mun frumvarpið fengið dönsku stjórninni í hendur ásamt tillögu um, að það verði borið undir samþykki danska ríkisþingsins. Alþingi Íslendinga var slitið í gær [dag], en búist er við því, að það komi saman aftur í septembermánuði til þess að ræða frumvarpið. Og þegar Alþingi hefur samþykkt það, mun það verða borið undir alþjóðaratkvæði.“
Ekki mátti hafa fréttina ítarlegri að svo stöddu, því danska samninganefndin var rétt að sigla til síns heima og ferðalagið tók um sex daga.
Dönsku samningamennirnir sigldu heim með danska varðskipinu Islands Falk að lokinni rúmlega hálfs mánaðar samningalotu, sem lauk með undirritun sambandslagasamningsins 18. júlí 1918.
Þorleifur K. Þorleifsson / Ljósmyndasafn Íslands
FRUMVARPIÐ AFGREITT SEM LÖG FRÁ ALÞINGI
Frumvarp til dansk-íslenskra sambandslaga var afgreitt sem lög frá Alþingi á aukaþingi sambandslagaþinginu) í september 1918. Jón Magnússon forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpinu hinn 2. september í neðri deild Alþingis og sagði m.a. í framsöguræðu sinni:
„Þetta frumvarp, sem bygt er á viðurkendum rjetti íslensku þjóðarinnar til þess að skipa öllum sínum málum eftir vild, felur í sjer fyrst og fremst staðfesting og viðurkenning sjálfstæðs fullvalda íslensks ríkis, í sambandi við Danmörku um sama konung. Samningur er auk þess gerður um einstök atriði, aðallega tvö, utanríkismál og gagnkvæmilegan rjett ríkisborgaranna í hvoru ríkjanna, en þessi samningur er uppsegjanlegur. Utanríkismálin íslensku fara Danir með í umboði voru, en hinu íslenska ríki er áskilinn rjettur til íhlutunar og eftir atvikum beint að fara með þessi mál sjálft. Úr öllum stjórnmáladeilum, sem staðið hafa milli Dana og Íslendinga um langan aldur, sker frumvarp þetta á svo glöggan hátt og með svo skýru orðalagi, sem frekast má verða, að minni hyggju, og það á þann hátt, að allar kröfur vorar eru teknar til greina, viðurkenning fullveldis með viðurkenning sjerstaks ríkis, sjerstakur ríkisborgararjettur, þjóðfáni, sambandið við ríkisráð Dana horfið, Ísland laust við hermál, en tilkynt ævarandi hlutleysi þess. Hæstarjett getum vjer stofnað hjá oss, er vjer óskum; en jeg skal ekki fara lengra út í efni frumvarpsins. …“
Á lokafundi í efri deild, mánudaginn 9. september, að lokinni dagskrá, mælti Guðmundur Björnson, forseti efri deildar:
„Það kann að virðast af sumum, að í mikið sje ráðist af oss, svo fámennri þjóð, er vjer nú tökum að oss að ráða sjálfir öllum vorum málum. En sú var tíðin áður, að þessi litla þjóð hafði full forráð mála sinna, og þótt hún væri minni flestum þjóðum, var hún að sama skapi merkari. En síðan eru liðnar langar stundir, og margt hefir á dagana drifið. Hallæri og drepsóttir, eldur og ís hafa sótt á landið í sameiningu.
En það voru ekki mestu meinin.
Það var annað, sem kom þjóðinni á knje. Það var skorturinn á trú á sjálfa sig, von á framtíðina og kærleikanum til landsins. Það kom þjóðinni og sjálfstæði hennar á knje. En sjálfstæði hennar höfum vjer nú reist við aftur, og þá biðjum vjer þess, að hana megi aldrei skorta þetta þrent, trú á sjálfa sig, von á framtíðina og ást á landinu, því að það er víst, að sú þjóð, sem elskar land sitt, hún bíður ekki ósigur. Hennar vonir bregðast ekki.“
Við þinglausnir í sameinuðu þingi, þriðjudaginn 10. september, sagði Jóhannes Jóhannesson, forseti
sameinaðs þings:
„Þetta þing, hið stysta, sem haldið hefir verið – það hefir staðið í eina 9 daga – hefir ráðið til lykta fyrir sitt leyti hinu mikilvægasta máli, sem legið hefir fyrir Alþingi, sáttmálanum við sambandsríki vort, Danmörku, um það, að Ísland skuli vera viðurkent og auglýst frjálst og fullvalda ríki, ævarandi hlutlaust í ófriði og í konungsambandi einu við Danmörku. Þessi sáttmáli hefir af vorri hálfu, Íslendinga, verið samþyktur af yfirgnæfandi meiri hluta Alþingis og verður nú bráðlega borinn undir alþingiskjósendur í landinu til samþyktar eða synjunar.
Það er ósk og von þessa meiri hluta þingsins, að þjóðin taki sáttmálanum ekki lakar en þingið og að einnig yfirgnæfandi meiri hluti hennar gjaldi já-kvæði sitt við honum, að Ríkisþing Dana samþykki hann fyrir sitt leyti og að sameiginlegur konungur vor staðfesti hann. Það er innileg ósk og von vor allra, að hin íslenska þjóð kunni með fullveldi sitt að fara og að gæta þess, og að það megi reynast henni í framtíðinni öflug lyftistöng til sannra framfara, bæði í andlegum og veraldlegum efnum. Það gefi guð.“
Horft yfir Alþingisgarðinn milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis að vetrarlagi. Húsið með tveimur skorsteinum fyrir miðri mynd er Baðhús Reykjavíkur, sem stóð á baklóð við Kirkjustræti. Til hægri sér í Kringlu Alþingishússins. Einnig sér í hús við Kirkjustræti og Vonarstræti. Myndin er tekin á árabilinu 1918–1925.
Magnús Ólafsson / Ljósmyndasafn Reykjavíkur
ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLA OG STAÐFESTING SAMBANDSLAGANNA
Í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór 19. október á landinu öllu voru sambandslögin samþykkt með 90,9% greiddra atkvæða. En þátttaka í atkvæðagreiðslunni var lítil, einungis 43,8% á landinu öllu.
Í nóvemberlok voru lögin samþykkt á danska þinginu. Forsætisráðherrar beggja landanna, þeir Carl Th. Zahle og Jón Magnússon, báru sambandslögin upp til staðfestingar í danska ríkisráðinu að morgni 30. nóvember og staðfesti Kristján konungur X. þau.
Sunnudaginn 1. desember 1918, klukkan tólf á hádegi, var íslenski ríkisfáninn dreginn að húni í fyrsta sinn á Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu í Reykjavík og því fagnað að Ísland var loks orðið frjálst og fullvalda ríki.
Hátíðarhöld fyrir framan Stjórnarráðshúsið 1. desember 1918.
Þorleifur K. Þorleifsson / Ljósmyndasafn Íslands
HEILLAÓSKASKEYTI Á BÁÐA BÓGA
Þegar lögin um fullveldi Íslands höfðu gengið í gildi 1. desember 1918 var tímabært að senda heillaóskaskeyti. Íslensku fulltrúarnir í sambandslaganefndinni sendu verslunarmálaráðherra Danmerkur, sem jafnframt var formaður danska hluta nefndarinnar, Christopher Hage, eftirfarandi símskeyti:
Íslensku nefndarmennirnir senda hér með dönsku samverkamönnunum alúðarfylstu kveðjur
með þakklæti fyrir góða samvinnu.
Jóh. Jóhannesson, Bjarni Jónsson frá Vogi, Einar Arnórsson, Þorsteinn Jónsson.
Þingforsetarnir sendu skeyti til Kristjáns X. konungs:
Alþingi Íslendinga óskar á þessum degi að senda konungi landsins sínar þegnsamlegu kveðjur
og láta í ljósi hinar beztu óskir konunginum og konungsættinni til handa.
Jóh. Jóhannesson, G. Björnsson, M. Guðmundsson.
Enn fremur sendu þingforsetar forsætisráðherranum, Jóni Magnússyni, sem var í Kaupmannahöfn á konungsfundi, svohljóðandi skeyti:
Alþingi sendir yður hamingjuósk sína þennan dag með þakklæti fyrir vel unnið starf.
Svo kom svarskeyti frá konungi til sameinaðs þings:
Alþingismaður Jóhannes Jóhannesson Reykjavík.
Drotningin og ég flytjum alþingi hjartanlegt þakklæti
með hlýjustu óskum um hamingju og gengi til handa Íslandi og þjóðinni.
Christian R.
Sambandslaganefndin í Alþingisgarðinum sumarið 1918.
Sigríður Zoëga / Ljósmyndasafn Íslands
Tenglar í ítarefni um fullveldið
- Valdar tilvitnanir í umræður um sambandslagasamninginn á Alþingi 1918
- Stuttmynd um fullveldi Íslands