Nýbygging á Alþingisreit

Gólfplata 1. hæðar fullsteypt og um 60% af veggjum á 1. hæð

10.8.2021

Vinna við nýbyggingu Alþingis gengur ágætlega þótt hægt hafi á verkinu yfir sumarleyfistímann. Búið er að steypa gólfplötu 1. hæðar, um 60% af veggjum 1. hæðar og undirsláttur hafinn á gólfplötu 2. hæðar.

Sem stendur er verkið um það bil tveimur mánuðum á eftir áætlun, m.a. vegna flækjustigs við uppsteypu 1. hæðar en þar er mikil sjónsteypa og háir veggir. Aðalverktakinn gerir þó ráð fyrir að seinkunin verði unnin upp á næstu mánuðum og því eiga verklok að haldast óbreytt en þau eru áætluð í apríl 2023. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á verkið eins og annað í samfélaginu. Efnisverð hefur hækkað og biðtími lengst, þar sem skortur er á hrávöru í heiminum. Einnig eru tafir í flutningakerfum heimsins af völdum faraldursins.

Að jafnaði eru á milli 30 og 40 starfsmenn á verkstað; staðarstjóri, tæknimenn, smiðir og verkamenn frá aðalverktaka og píparar, rafvirkjar og aðrir undirverktakar sem vinna að verkþáttum á verkstað eftir þörfum.

Vegna framkvæmdanna hefur Tjarnargötu milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis verið lokað fyrir akandi umferð en reiknað er með að hún verði opnuð aftur í byrjun ágúst 2022.

Vinnsla steinklæðningar er í fullum gangi hjá Steinsmiðju SSJ í Hafnarfirði og steinsmiðju S. Helgasonar í Kópavogi. Áætlað er að búið sé að vinna um 60% af klæðningunni en gert er ráð fyrir að framleiðslu steinklæðningar verði lokið í lok febrúar 2022. Í steinklæðningunni er Reykjavíkurgrágrýti, Grindavíkurgrágrýti, gabbró, líparít, blágrýti og hraungrýti.

Nybygging_10082021