Nýbyggingu miðar vel
Framkvæmdir við nýja skrifstofubyggingu Alþingis á Tjarnargötu 9 ganga vel og má nú sjá bygginguna rísa hægt og bítandi upp fyrir framkvæmdagirðinguna og setja með því heilmikinn svip á götumyndina.
Uppsteypu veggja 2. hæðar er nánast lokið, búið er að steypa tvo af fjórum áföngum gólfplötu 3. hæðar og vinna er hafin við uppslátt veggja á 3. hæð en alls verða hæðirnar fimm. Þá er vinna innandyra hafin og er sem stendur unnið við tengigrindur pípulagna, aðalrafmagnstöflu hússins, múrverk, sprinklerlagnir, dælubrunn og málun í kjallara. Í byrjun febrúar er svo von á fyrstu sendingu af gluggum hússins til landsins, sem og undirkerfi klæðningar.
Kjallari hússins og 1. hæð voru hvað flóknust í undirbúningi og uppsteypu en nú má segja að við taki hefðbundnara ferli sem hvort tveggja er einfaldara og vinnst hraðar. Verkið gengur samkvæmt áætlun, reiknað er með að uppsteypu hússins ljúki í lok júlí 2022 en verklok verði vorið 2023.
Þegar uppsteypu verður lokið hefst einangrun og steinklæðning hússins að utan. Húsið verður klætt með Reykjavíkurgrágrýti, Grindavíkurgrágrýti, gabbró, líparít, blágrýti og hraungrýti.
Talsverðar áskoranir hafa mætt framkvæmdaaðilum á framkvæmdatímabilinu. Ber þar fyrst að nefna mikla nálægð við mikilvægar byggingar; Alþingi og Ráðhús Reykjavíkur. Byggingareiturinn er mjög lítill og olnbogarými á byggingarstað takmarkað. Mikil og flókin sjónsteypa er í húsinu og ítrustu kröfur gerðar til fagkunnáttu starfsmanna. Til þessa hefur verkstaðurinn sloppið nokkuð vel við tafir af völdum kórónuveirufaraldursins. Þó hafa verið blikur á lofti undanfarnar vikur þar sem æ fleiri starfsmenn hafa lent í sóttkví. Þá hafa verktakar lent í töfum á aðföngum erlendis frá.