Nýbygging á Alþingisreit

Samningur undirritaður um byggingu skrifstofuhúss á Alþingisreit

18.11.2020

Samningur við ÞG verktaka um þriðja áfanga byggingar fimm hæða skrifstofuhúss á Alþingisreit var undirritaður í dag. Undir samninginn rituðu Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri fyrir hönd Alþingis og fyrir hönd verktaka Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verktaka. Viðstaddir athöfnina voru auk þess arkitektar hússins, fulltrúar forsætisnefndar, verktaka og Framkvæmdasýslu ríkisins.

Í þriðja áfanganum felst uppsteypa og fullnaðarfrágangur. Flatarmál aðalbyggingarinnar verður 5.073 m² að viðbættum 1.307 m² bílakjallara og kostnaðaráætlun þessa verkhluta er 3.340.725.282 m. vsk. Verktakinn er þegar byrjaður að koma sér fyrir á svæðinu og eru verklok áætluð í lok apríl 2023.
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingaframkvæmdunum en arkitektar Studio Granda hlutu fyrstu verðlaun fyrir tillögu sína í hönnunarsamkeppni sem haldin var árið 2016. Aðilar hönnunarteymis eru Studio Granda og EFLA.

Í byggingunni sem rís að Tjarnargötu 9, á milli Kirkjustrætis, Vonarstrætis og Tjarnargötu, verða skrifstofur þingmanna, funda- og vinnuaðstaða fyrir þingflokka og starfsfólk þeirra, fundaherbergi fastanefnda, vinnuaðstaða fyrir starfsfólk nefndanna. Öll þessi aðstaða er nú í leiguhúsnæði. Einnig verður mötuneyti í nýbyggingunni en það er nú í Skála.

Verkið verður unnið samkvæmt reglum hins nýja leiðsagnarverkefnis VÖR, sem tekur á helstu þáttum neikvæðra samfélagsáhrifa vegna byggingaframkvæmda. Skammstöfunin VÖR stendur fyrir Vistkerfi Öryggi Réttindi og er verkefninu ætlað að lágmarka neikvæð áhrif byggingaframkvæmda á sviði umhverfis-, öryggis- og réttindamála. Markmiðin með aðgerðum í vistkerfismálum eru að lágmarka umhverfisáhrif af framkvæmdum og rekstri byggingarinnar. Á sviði öryggismála eru markmiðin að engin alvarleg slys verði á verkstaðnum og að starfsfólk njóti góðrar líkamlegrar og andlegrar heilsu á verktímanum. Loks eru markmiðin hvað varðar réttindamál að vinnuaðstæður séu til fyrirmyndar og að öll réttindi starfsmanna séu virt að fullu.

Undirritun-18.11.2020-1

Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verktaka, skrifa undir samninginn.

Undirritun-18.11.2020-16Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, Bryndís Haraldsdóttir, 6. varaforseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Guðjón Brjánsson, 1. varaforseti Alþingis, og Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verktaka.

Undirritun-18.11.2020-17

Boðið var upp á heitt kakó og smákökur að undirritun lokinni.

Undirritun-18.11.2020-19Arkitektar hússins, Steve Christer og Margrét Harðardóttir hjá Studio Granda, á spjalli við Guðjón Brjánsson, 1. varaforseta Alþingis.