Nýbygging á Alþingisreit

Tilboð opnuð í byggingu skrifstofuhúss á Alþingisreit

3.9.2020

Tilboð í þriðja áfanga byggingar skrifstofuhúss á Alþingisreit voru opnuð hjá Ríkiskaupum í dag. 

Fjórir bjóðendur skiluðu inn tilboðum, tvö þeirra voru undir kostnaðaráætlun og tvö yfir kostnaðaráætlun. Tilboðin verða yfirfarin af Framkvæmdasýslu ríkisins og í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvaða tilboði verður tekið. Kostnaðaráætlun verksins er 3.270.030.787 kr. með vsk.

Útboðið var tvíþætt; annars vegar var boðið í byggingu grunnhúss á fjórum hæðum (verk A), hins vegar grunnhúss að viðbættri 5. hæð (verk B).

Tilboðin sem bárust má skoða á vef Ríkiskaupa.

Um er að ræða byggingu sjálfs hússins, þ.e. jarðvinnu, uppsteypu og fullnaðar- og lóðarfrágang. Áður var búið að bjóða út jarðvegsframkvæmdir og vinnslu steinklæðningar sem verður utan á húsinu. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í október nk. Verklok eru áætluð í lok febrúar 2023.

Í byggingunni sem rís á milli Kirkjustrætis, Vonarstrætis og Tjarnargötu verða skrifstofur þingmanna, funda- og vinnuaðstaða fyrir þingflokka og starfsfólk þeirra, fundaherbergi fastanefnda og vinnuaðstaða fyrir starfsfólk nefndanna. Öll þessi aðstaða er nú í leiguhúsnæði. Þá er gert ráð fyrir mötuneyti í nýbyggingunni.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingaframkvæmdunum en arkitektar Studio Granda hlutu fyrstu verðlaun fyrir tillögu sína í hönnunarsamkeppni sem haldin var árið 2016. Aðilar hönnunarteymis eru Studio Granda og EFLA.

Nybygging