Heimsóknir og fræðsla
Boðið er upp á leiðsögn og fræðslu fyrir skóla og aðra hópa í námslegum tilgangi. Ekki er boðið upp á leiðsögn fyrir almenna gesti. Hægt er að sníða efnistök að þörfum hvers og eins hóps.
Á fræðslusíðu Alþingis má nálgast upplýsingar um það sem í boði er fyrir öll skólastig.
Hægt er að senda tölvupóst varðandi fyrirspurnir og til að bóka heimsókn fyrir skólahópa.
Hópar
Tekið er á móti skólahópum sem vilja kynnast starfsemi Alþingis og skoða Alþingishúsið. Nauðsynlegt er að skipuleggja heimsóknir hópa með góðum fyrirvara. Móttaka hópa fer að jafnaði fram utan þingfundartíma. Fræðsluteymi skrifstofu Alþingis annast heimsóknir hópa í Alþingishúsið. Á meðan þingfundur stendur eru þingpallar öllum opnir. Þingpallarnir eru á þriðju hæð Alþingishússins. Gengið er inn á þingpalla frá Templarasundi.
Hægt er að bóka heimsóknir skólahópa með því að senda tölvupóst eða hringja í síma 563 0500.
Skólaþing
Skólaþing er kennsluver Alþingis fyrir 8.–10. bekki grunnskólans. Með Skólaþingi er leitast við að efla skilning og þekkingu nemenda á stjórnskipulagi okkar, störfum Alþingis og lýðræðislegum vinnubrögðum. Tölvutækni og margmiðlun eru nýtt til að miðla upplýsingum og stýra leiknum.
Til að hægt sé að leika leikinn verða minnst 12 nemendur að taka þátt og í mesta lagi 32. Heimsókn í Skólaþing tekur að jafnaði tvær og hálfa til þrjár klukkustundir. Heimsókn í Skólaþing er ókeypis.
Með Skólaþinginu er komið til móts við áhuga skóla á því að koma með nemendur í vettvangsferðir á Alþingi. Skólaþingi er þannig ætlað að auka fjölbreytni í fræðslu um Alþingi.
Nánari upplýsingar er að finna á vef Skólaþings.