Komdu og skoðaðu Alþingi!

Heimsóknin hentar yngsta stigi grunnskóla (2.–4. bekk) og er miðuð út frá kennslu samfélagsgreina og námsefnisins Komdu og skoðaðu land og þjóð.

Programm-fyrir-2.-4.-bekk-Komdu-og-skodadu-Althingi-

Markmið

  • Að dýpka þekkingu nemenda á hlutverki Alþingis
  • Að veita grunnþekkingu á lögum og tilgangi þeirra fyrir samfélagið
  • Að veita nemendum innsýn í ólík störf innan Alþingis
  • Að nemendur upplifi Alþingi sem áhugaverða stofnun sem gaman er að heimsækja
  • Að nemendur kynnist grunnatriðum lýðræðis

Um heimsóknina

Tekið er á móti hópnum fyrir framan Alþingishúsið þar sem sagt er stuttlega frá byggingunni og umhverfi hennar. Einnig verður kíkt í Alþingisgarðinn ef vel viðrar. Því næst er gengið inn í Skála þar sem börnin taka af sér yfirhafnir í fatahengi, þau boðin velkomin og spjallað við þau um starfsemi þingsins. Gengið er um Alþingishúsið með viðkomu í ýmsum rýmum þess. Börnin fræðast um það sem fyrir augu ber og tengist starfsemi þingsins.

Heimsóknin er miðuð út frá aðalnámskrá grunnskóla. Þar er meðal annars kveðið á um að nemendur á yngri stigum þekki mikilvægar stofnanir samfélagsins og geti nefnt dæmi um lýðræðislega þætti, réttindi sín og skyldur. Í aðalnámskrá er einnig lögð áhersla á mikilvægi þess að efla virka þátttöku nemenda í lýðræðisþjóðfélagi og efla þekkingu þeirra á því hvað er að vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi.

Heimsóknin tekur um 1 klst. (45–60 mínútur)

Nánari upplýsingar og bókanir