Siðareglur fyrir starfsfólk Alþingis

Í þeim tilgangi að efla fagleg vinnubrögð og auka traust á störfum skrifstofu Alþingis staðfestir forseti Alþingis siðareglur fyrir starfsfólk Alþingis, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Reglunum er ætlað að endurspegla þau siðferðilegu gildi og ábyrgð sem er samofin störfum fyrir Alþingi. Siðareglurnar taka mið af lagalegum kröfum, gildum og samskiptasáttmála starfsfólks Alþingis og eru til leiðbeiningar um breytni innan vinnustaðar sem utan. Markmið þeirra er að stuðla að gagnkvæmri virðingu og skapa öruggt og jákvætt starfsumhverfi. Reglurnar gilda um starfsfólk Alþingis, bæði starfsfólk skrifstofu og þingflokka.

Hvert og eitt okkar ber ábyrgð á að kynna sér siðareglurnar og tileinka sér þær. Stjórnendum ber að ganga á undan með góðu fordæmi og sjá til þess að starfsfólk sé upplýst um tilvist og inntak siðareglnanna. Enn fremur skulu þau bregðast við verði þau vör við brot á reglunum eða hátterni sem gengur gegn gildum, samskiptasáttmála eða siðareglum.

1. Gildi

Við vinnum störf okkar af heilindum og höfum fagmennsku að leiðarljósi. Við leitumst stöðugt við að auka þekkingu okkar og færni til að mæta kröfum vinnustaðarins og samfélagsins. Reynslu okkar og þekkingu deilum við svo að hún megi nýtast samstarfsfólki okkar og vinnustaðnum.

Við treystum hvert öðru og sýnum virðingu í samskiptum. Við berum virðingu fyrir ólíkum skoðunum, lýðræðinu, mannréttindum og vinnustað okkar. Við virðum lög og reglur og vinnum sameiginlega að því að viðhalda virðingu Alþingis.

Við erum framsýn og jákvæð gagnvart breytingum. Við einsetjum okkur að ganga á undan með góðu fordæmi. Við erum lausnamiðuð og vinnum að stöðugum umbótum. Við erum sjálfstæð og skilvirk í störfum okkar og hikum ekki við að sýna frumkvæði með hag vinnustaðarins að leiðarljósi.

2. Samskipti

Við styðjum hvert annað og sýnum nærgætni. Við vinnum sem heild og treystum fagþekkingu hvert annars. Við erum heiðarleg í störfum okkar og samskiptum. Við erum jákvæð í viðmóti og hrósum fyrir það sem vel er gert. Við virðum mörk hvert annars og ólík sjónarmið.

Við gætum trúnaðar um persónuleg málefni og þær upplýsingar sem við höfum aðgang að í starfi og leynt eiga að fara. Við einsetjum okkur að samskipti við fólk utan vinnustaðarins og opinber tjáning einkennist af virðingu og varpi ekki rýrð á störf okkar eða stofnunina.

Við segjum satt og rétt frá, veitum réttar upplýsingar og ráðgjöf sem byggist á gögnum, staðreyndum og faglegu mati og beitum bestu vitneskju hverju sinni í störfum okkar.

3. Heiðarleiki og traust

Við höfum ætíð hugfast að við störfum í þágu almennings. Við sýnum ráðdeild og förum vel með almannafé. Við hugum að umhverfi og loftslagi í samræmi við áherslur Alþingis og leggjum þannig okkar af mörkum til umhverfisins og framtíðarinnar. Við þiggjum ekki verðmætar persónulegar gjafir eða aðra fyrirgreiðslu sem okkur býðst vegna starfa okkar á Alþingi. Við erum vakandi fyrir hagsmunatengslum okkar og gerum viðvart geti þau haft áhrif á störf okkar og valdið því að hægt væri að draga trúverðugleika okkar í efa. Við upplýsum vinnustaðinn um störf okkar utan hans og gætum að því að ekki skapist hagsmunaárekstrar í tengslum við þau.

Við leggjum okkur fram um að sinna upplýsingaskyldu okkar gagnvart almenningi og tryggja greiðan aðgang að stofnuninni og þjónustu hennar, óháð aðstæðum, svo sem vegna fötlunar, móðurmáls eða annars.

4. Öruggt starfsumhverfi

Við leggjum okkur fram við að skapa jákvætt, heilbrigt og gott starfsumhverfi. Við líðum ekki meiðandi hegðun eða samskipti og erum á varðbergi gagnvart slíku hátterni. Við mismunum ekki fólki, svo sem á grundvelli kyns, kynvitundar, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, uppruna, trúarbragða eða skoðana. Skrifstofan hefur sett sér áætlun um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi til að taka á málum af þeim toga.

5. Viðbrögð við hátterni og erindum

Verðum við þess áskynja að tiltekið hátterni gangi gegn siðareglum þessum vekjum við athygli næsta stjórnanda á því. Ef næsti stjórnandi á í hlut, hefur hagsmuna að gæta eða er af öðrum ástæðum ekki bær til að taka við ábendingu leitum við til annars stjórnanda, mannauðsstjóra eða skrifstofustjóra Alþingis eftir því sem við á.

Stjórnandi sá er tekur við ábendingu skal eftir atvikum ræða hana við mannauðsstjóra eða skrifstofustjóra Alþingis. Á þeim vettvangi skal mat lagt á umrætt hátterni og ákvörðun tekin um næstu skref. Ef unnt er skal unnið að því að bæta úr umræddu hátterni. Ef um alvarlegt brot er að ræða skal kanna hvort viðkomandi teljist jafnframt hafa brotið gegn starfsskyldum sínum eða mögulega gagnvart öðrum lögum.

Starfsfólk geldur aldrei fyrir ábendingar um brot á siðareglum þessum eða fyrir það að leita réttar síns telji það á sér brotið.

Siðareglurnar staðfesti Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, 3. apríl 2023.