Nefndasvið
Hlutverk nefndasviðs er að tryggja vandaða lagasetningu og fagleg vinnubrögð og veita þingnefndum og þingmönnum sérfræðiaðstoð og ráðgjöf til að þeir geti sinnt skyldum sínum. Starfsfólk sviðsins starfar í þremur deildum, nefndadeild, fjárlaga- og greiningardeild og alþjóðadeild.
Sérfræðingar nefndadeildar veita allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd faglega aðstoð og ráðgjöf m.a. við yfirferð þingmála, gerð nefndarálita og breytingartillagna, gagna- og upplýsingaöflun og skipulagningu og undirbúning nefndafunda.
Sérfræðingar fjárlaga- og greiningardeildar veita fjárlaganefnd og framtíðarnefnd samskonar faglega aðstoð og ráðgjöf. Að auki hefur deildin frumkvæði að ýmsum greiningarverkefnum, m.a. í tengslum við lög um opinber fjármál, til að tryggja eftirlit með framkvæmd fjárlaga og gerð sviðsmynda og annarra greininga fyrir framtíðarnefnd.
Sérfræðingar alþjóðadeildar veita utanríkismálanefnd samskonar faglega aðstoð og ráðgjöf og aðrar deildir. Deildin veitir einnig alþjóðanefndum faglega aðstoð og ráðgjöf, m.a. á sviði alþjóðamála, við undirbúning fyrir þátttöku í alþjóðlegum fundum, gagna- og upplýsingaöflun og undirbúning fyrir alþjóðlega þingmannafundi sem haldnir eru á Íslandi.
Sérfræðingar sviðsins veita þingmönnum og starfsfólki þingflokka að auki lögfræðilega og aðra faglega ráðgjöf við gerð frumvarpa, þingályktunartillagna og eftir atvikum breytingartillagna.
Starfsfólk nefndasviðs hefur aðsetur á 2. og 3. hæð Austurstrætis 8–10, en í því húsi eru jafnframt fundarherbergi fastanefnda þingsins.