Áætlun um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi

2. útgáfa, október 2018

  • Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu. 
  • Einelti, kynferðisleg og kynbundin áreitni og ofbeldi, í hvaða mæli eða mynd sem það birtist, verður ekki látin viðgangast á skrifstofu Alþingis. 
  • Það er á ábyrgð bæði stjórnenda og annarra starfsmanna skrifstofu Alþingis að fyrirbyggja og bregðast við slíkri hegðun.
123noun_42093_cc

SKILGREININGAR

 EINELTI:Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
 KYNBUNDIN ÁREITNI:Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

KYNFERÐISLEG ÁREITNI:

Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
OFBELDI: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

FORVARNIR

123noun_977475_ccStjórnendur og aðrir starfsmenn skulu vinna að jákvæðri starfsmenningu þar sem fólki líður vel, gagnkvæm virðing ríkir og hvatt er til opinna samskipta og uppbyggilegrar gagnrýni. Stjórnendur skulu tryggja að vinnuaðstæður lágmarki hættu á einelti, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum. Hugað skal sérstaklega að vinnuaðstæðum á opnum svæðum. Brugðist skal svo fljótt sem auðið er við vandamálum, árekstrum og samskiptaörðugleikum á vinnustaðnum. Stjórnendum skal bjóðast þjálfun í því að leysa samskiptavandamál. 

123noun_30823_ccStarfsmönnum skal gert ljóst með skýrum hætti að einelti, kynferðisleg og kynbundin áreitni og ofbeldi sé óheimilt og að öllum starfsmönnum beri að vinna gegn slíkri háttsemi. Nýjum starfsmönnum skal kynnt áætlun um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi við upphaf starfs. Áætlunin skal reglulega rifjuð upp á starfsmannafundum. 

123noun_699138_ccStarfsmannaskrifstofa skal tryggja að reglulega fari fram áhættumat á vinnustaðunum samkvæmt 5. grein reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, áreiti og ofbeldi og að gerð sé áætlun um heilsuvernd og forvarnir í samræmi við niðurstöður matsins. Starfsmannaskrifstofan skal jafnframt tryggja endurmat að loknum úrbótum.

VIÐBRÖGÐ

Starfsmaður sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni eða ofbeldi á vinnustað eða hafa rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun eða hættu á slíkri hegðun á vinnustað skal upplýsa yfirmann eða starfsmannaskrifstofu um það. Yfirmaður skal láta starfsmannaskrifstofu vita af tilkynningu frá starfsmanni. Gæta skal að því að skrá niður* atriði eins og dagsetningar, nöfn, vitni og annað það sem skipt getur máli vegna skoðunar málsins.

Starfsmannaskrifstofa skal svo fljótt sem kostur er meta aðstæður. Almennt skal hún ræða við meintan þolanda og geranda einslega, nema þeir óski þess að hafa trúnaðaraðila með sér. Jafnframt ræðir hún við aðra sem kunna að hafa vitneskju um atvik og aflar gagna eftir því sem þörf er á til að fá fullnægjandi mynd af atvikum. 

Leiði mat á aðstæðum í ljós að tilkynning átti við rök að styðjast skal starfsmannaskrifstofa, í samráði við yfirmann hlutaðeigandi, tryggja að gripið verði til aðgerða til að stöðva hegðun, sé hún enn til staðar, og koma í veg fyrir að hún endurtaki sig, sem og tryggja að aðstæður á vinnustað valdi ekki hættu á slíkri hegðun. Aðgerðir geta meðal annars falist í því að gerandi fái leiðsögn og aðvörun, sáttamiðlun, takmörkun á samskiptum geranda við þolanda eða breytingum á skipulagi vinnu, svo sem með því að færa geranda til í starfi. Í alvarlegum tilvikum skal hugað að áminningu eða uppsögn geranda. Hafi starfsmannaskrifstofa rökstuddan grun um að refsivert brot hafi átt sér stað skal það kært til lögreglu. 

123noun_893853_ccStarfsmannaskrifstofa skal kanna hvort úrlausn hafi reynst fullnægjandi að hæfilegum tíma liðnum. Ef svo er lýkur starfsmannaskrifstofa málinu formlega með tilkynningu til þolanda, geranda og yfirmanns þeirra, en skal ella tryggja að gripið verði til frekari aðgerða þar til fullnægjandi úrlausn fæst. 

Leiði mat á aðstæðum í ljós að tilkynning átti EKKI við rök að styðjast lýkur starfsmannaskrifstofa málinu formlega með tilkynningu til meints þolanda, geranda og yfirmanns þeirra. Hafi tilkynning verið lögð fram gegn betri vitund skal tekið á því. Þeim sem að ósekju hefur verið ásakaður skal boðinn stuðningur. 

Starfsmannaskrifstofa getur kallað til utanaðkomandi sérfræðing til að fá aðstoð við að meta aðstæður eða við úrlausn máls telji hún eða meintur þolandi þess þörf.

Starfsmannaskrifstofa skal skrá niður allt sem tengist meðferð máls og halda hlutaðeigandi starfsmönnum upplýstum meðan á meðferðinni stendur, meðal annars með því að veita þeim aðgang að öllum upplýsingum og gögnum í málinu, að teknu tilliti til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. 

Við meðferð máls skal starfsmannaskrifstofa sýna varfærni og nærgætni í aðgerðum sínum með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi starfsmanna í huga, meðal annars með því að veita ekki óviðkomandi aðilum upplýsingar um mál og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama. 

Yfirmaður sem ásakaður er um einelti, kynferðislega eða kynbundna áreitni eða ofbeldi, er vanhæfur til þess að taka ákvarðanir um starfsskilyrði þess sem sendi tilkynningu eða tilkynning lýtur að á meðan meðferð málsins stendur og skal næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir.

*Við skráningu atvika þarf eftirfarandi að koma fram:

  • Dagsetning.
  • Nafn þolanda og starfseining.
  • Nafn meints geranda og starfseining.
  • Atvikalýsing, hvað gerðist, hvar og hvenær (tíma- og dagsetningar).
  • Vistun gagna, t.d. myndefnis, tölvupósta og skilaboða.
  • Vitni, ef einhver eru.

FERILL Í KJÖLFAR TILKYNNINGAR UM EINELTI, KYNFERÐISLEGA EÐA KYNBUNDNA ÁREITNI EÐA OFBELDI

Ferill í kjölfar tilkynningar um einelti, kynferðislega eða kynbundna áreitni eða ofbeldi

FREKARI UPPLÝSINGAR FRÁ VINNUEFTIRLITINU


Stjórnendum er bent á upplýsingabæklinginn „Sættum okkur ekki við einelti, áreitni, ofbeldi“ 

Öðru starfsfólki er bent á upplýsingabæklinginn „Enginn á að sætta sig við einelti, áreitni, ofbeldi


SÆTTUM OKKUR EKKI VIР

EINELTI - ÁREITNI - OFBELDI