Jafnlaunastefna skrifstofu Alþingis

Jafnlaunavottun_adalmerki_2022_2025_f_ljosan_grunnSkrifstofa Alþingis tryggir starfsfólki launajafnrétti fyrir sömu eða jafnverðmæt störf í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákvörðuð með sama hætti óháð kyni og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar feli ekki í sér kynjamismunun.

Skrifstofustjóri Alþingis ber ábyrgð á jafnlaunakerfi og jafnréttisáætlun skrifstofu Alþingis. Hann ber jafnframt ábyrgð á að kröfum jafnlaunastaðals ÍST 85:2012 og öðrum lagalegum kröfum er tengjast málaflokknum sé fylgt eftir.

Jafnlaunastefnan er órjúfanlegur hluti af jafnlaunakerfinu og tekur til starfsfólks skrifstofunnar og starfsfólks þingflokka. Skrifstofustjóri felur mannauðsstjóra ábyrgð á rekstri og viðhaldi jafnlaunakerfis og á því að viðhöfð séu fagleg vinnubrögð við skjölun og stjórn kerfisins.

Skrifstofa Alþingis er vinnustaður þar sem starfsfólk hefur jöfn tækifæri í starfi og enginn kynbundinn launamunur er til staðar. Skrifstofan greiðir laun sem taka mið af þeim kröfum sem starfið gerir um þekkingu, hæfni og ábyrgð í samræmi við starfaflokkun skrifstofunnar.

Umfang og eðli starfa hefur áhrif á laun og ræðst af viðmiðum starfaflokkunar samkvæmt jafnlaunastaðli, svo sem þekkingu, hæfni, ábyrgð, álagi og persónubundnum þáttum samkvæmt stofnanasamningi. Það er sameiginleg ábyrgð stjórnenda að launaákvarðanir séu teknar í samræmi við stefnu þessa og þær byggðar á gagnsæjum og málefnalegum forsendum.


Til að framfylgja markmiðum jafnlaunastefnunnar mun skrifstofa Alþingis:

  • Innleiða og viðhalda vottuðu jafnlaunakerfi sem byggt er á jafnlaunastaðli ÍST 85:2012.
  • Gera launagreiningu árlega í samræmi við jafnréttisáætlun skrifstofunnar.
  • Hafa eftirlit með og bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum.
  • Greina niðurstöður með stjórnendum og kynna þær fyrir starfsfólki.
  • Fylgja lögum, reglum og kjarasamningum hverju sinni. 
  • Kynna jafnlaunastefnuna fyrir starfsfólki og birta hana á ytri vef skrifstofu Alþingis. 


Samþykkt á fundi yfirstjórnar og forstöðumanna 11. maí 2021.