Jafnlaunastefna skrifstofu Alþingis

Jafnlaunavottun

Skrifstofa Alþingis greiðir konum og körlum jöfn laun og njóta  þau  jafnra kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf í samræmi við ÍST 85 jafnlaunastaðalinn. Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákvörðuð með sama hætti fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar feli ekki í sér kynjamismunun.

Skrifstofustjóri Alþingis ber ábyrgð á jafnlaunakerfi og jafnréttisáætlun skrifstofunnar. Hann ber jafnframt ábyrgð á að lagalegum kröfum jafnlaunastaðals ÍST 85:2012, lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008 og öðrum lögum er tengjast málaflokknum, sé fylgt eftir. Skrifstofustjóri felur starfsmannastjóra ábyrgð á rekstri og viðhaldi jafnlaunakerfis skrifstofu Alþingis og að viðhöfð séu fagleg vinnubrögð við skjölun og stjórn jafnlaunakerfisins. 

Jafnlaunastefnan er órjúfanlegur hluti af launastefnu og jafnlaunakerfi skrifstofu Alþingis og tekur til allra starfsmanna skrifstofunnar og starfsmanna þingflokka. Skrifstofan er vinnustaður þar sem konur og karlar hafi jöfn tækifæri í starfi og enginn kynbundinn launamunur sé til staðar.

Til að framfylgja markmiðum jafnlaunastefnunnar mun skrifstofa Alþingis:

  • Innleiða og viðhalda vottuðu jafnlaunakerfi sem byggt er á jafnlaunastaðli ÍST 85.
  • Gera launagreiningu árlega í samræmi við jafnréttisáætlun skrifstofunnar.
  • Hafa eftirlit með og bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum.
  • Greina niðurstöður með stjórnendum og kynna þær fyrir starfsmönnum.
  • Fylgja lögum, reglum og kjarasamningum hverju sinni.
  • Kynna jafnlaunastefnuna fyrir starfsmönnum og birta hana á ytri vef skrifstofu Alþingis.


    Samþykkt á fundi yfirstjórnar 22. október 2019