Jafnréttisáætlun

 

Jafnréttisáætlun þessi fjallar um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum skrifstofu Alþingis þau réttindi sem kveðið er á um í lögum um jafna stöðu og jafnan réttkvenna og karla, nr. 10/2008 („jafnréttislög“), og stuðla þannig að því að skrifstofan sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem starfskraftar bæði kvenna og karla nýtast til fulls.

Stjórnendur og aðrir starfsmenn bera sameiginlega ábyrgð á að gæta að jafnrétti innan skrifstofunnar.

LAUNAJAFNRÉTTI

Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf, sbr. 19. gr. jafnréttislaga. Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Þau viðmið sem lögð eru launaákvörðunum til grundvallar skulu ekki fela í sér kynjamismunun.

Starfsfólki er ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum. Yfirmanni eða öðrum sem koma að ákvörðun launa er óheimilt að óska trúnaðar starfsmanns um launakjör hans.

 

 Markmið Aðgerð  Ábyrgð  Tímarammi 
Að konur og karlar njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.  

Gera skal tölfræðilega úttekt og greiningu á kynbundnum mun á launum og öðrum kjörum starfsmanna. Niðurstöður skulu kynntar öllu starfsfólki. Mælst er til þess að óháður aðili annist úttektina.

Yfirstjórn í samráði við jafnréttisnefnd.

Annað hvert ár.  

 

Leiði úttekt í ljós kynbundinn mun á launum eða öðrum kjörum skal yfirstjórn kynna starfsfólki aðgerðir til úrbóta.

Yfirstjórn í samráði við jafnréttisnefnd.

Svo fljótt sem auðið er.

Telji starfsmaður sig beittan kjaramisrétti á grundvelli kynferðis skal hann gera yfirmanni rökstudda grein fyrir því. Fallist yfirmaður á rök starfsmanns skulu kjör hans leiðrétt, en ella skal yfirmaður gera starfsmanni rökstudda grein fyrir því af hverju hann fallist ekki á rök starfsmanns.


Starfsmaður og yfirmaður.

 
Yfirmaður skal taka afstöðu til erindis starfsmanns svo fljótt sem auðið er.

LAUS STÖRF OG FRAMGANGUR Í STARFI

 

Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum og körlum, sbr. 1. mgr. 20. gr. jafnréttislaga.

Stjórnendur skulu markvisst vinna að því að hlutfall kynjanna í hverri tegund starfs á skrifstofunni sé sem jafnast. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna stöðu kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Jafnréttissjónarmið skulu hafa sama vægi og önnur mikilvæg sjónarmið við stöðuveitingar.

Þess skal gætt við úthlutun verkefna og ábyrgðar, þar á meðal skipun í starfs- eða vinnuhópa, sem og við framgang eða tilfærslu í störfum, að gætt sé að því að kynjahlutfall sé sem jafnast og að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis.

 

 Markmið  Aðgerð  Ábyrgð  Tímarammi
Að konur og karlar hafi jafnan aðgang að störfum.

Öll störf skulu auglýst. Í auglýsingum skulu störf ókyngreind og þess gætt að hafa bæði kynin í huga við gerð þeirra. Hvetja skal bæði kynin til að sækja um auglýst störf. Sambærilegar spurningar skulu lagðar fyrir einstaklinga af báðum kynjum í ráðningarviðtölum. Starfsauglýsingum og spurningunum í ráðningarviðtölum skal haldið til haga.

Ábyrgðaraðilar ráðninga. 

Þegar staðið er að ráðningum.

Ef tveir jafnhæfir einstaklingar sækja um stöðu skal að jafnaði sá ganga fyrir sem er af því kyni sem er í minni hluta í viðkomandi starfi.   Ábyrgðaraðilar ráðninga. Þegar staðið er að ráðningum
 Jöfn tækifæri til framgangs í starfi. Afla skal upplýsinga um hlut kynja í stjórnunar- og áhrifastöðum hjá skrifstofu Alþingis. Niðurstöður skulu kynntar öllu starfsfólki.  Yfirstjórn í samráði við jafnréttisnefnd. Annað hvert ár.

STARFSÞJÁLFUN, ENDURMENNTUN OG SÍMENNTUN

 

Konur og karlar skulu njóta sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið er haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum, sbr. 2. mgr. 20. gr. jafnréttislaga.

 

 Markmið  Aðgerð  Ábyrgð  Tímarammi
Að konur og karlar hafi jafnan aðgang að endurmenntun Halda skal kynjagreint yfirlit yfir þátttöku starfsfólks í námskeiðum, fræðsluráðstefnum og annarri endurmenntun á vegum skrifstofu Alþingis. Niðurstöður skulu kynntar öllu starfsfólki.

Yfirstjórn í samráði við jafnréttisnefnd. Yfirmenn senda jafnréttisnefnd yfirlit greint eftir kynjum þegar nefndin kallar eftir því.

Annað hvert ár.

Komi í ljós að á annað kynið halli ber yfirstjórn að gera starfsfólki grein fyrir því hvernig slíkur halli verði leiðréttur.  Yfirstjórn í samráði við yfirmenn og jafnréttisnefnd  Svo fljótt sem auðið er.

SAMRÆMING FJÖLSKYLDU- OG ATVINNULÍFS

Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu, sbr. 21. gr. jafnréttislaga.

Starfsfólki skal standa til boða sveigjanlegur vinnutími, hlutastörf eða önnur vinnuhagræðing, eftir því sem við verður komið og þörf er á. Karlar jafnt sem konur skulu njóta sveigjanleika til að sinna fjölskyldum sínum.

Óheimilt er að láta fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir um framgang í starfi, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði. Sama á við um forföll vegna veikinda barna.

Yfirvinna starfsfólks skal lágmörkuð.

 

Markmið  Aðgerð   Ábyrgð  Tímarammi
Að konum og körlum sé kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Starfsfólki skulu kynnt úrræði á borð við sveigjanlegan vinnutíma, möguleika á hlutastörfum og þess háttar. Starfsmenn skulu hvattir til að nýta rétt sinn til fæðingar- og foreldraorlofs og veikindadaga barna. Yfirmenn. Árlega eða oftar.
Að lágmarka yfirvinnu starfsfólks og uppræta kynbundinn mun þar á. Afla skal kynjagreindra upplýsinga um fjölda yfirvinnustunda. Niðurstöður skulu kynntar öllu starfsfólki. Yfirstjórn í samráði við jafnréttisnefnd. Annað hvert ár.
Bregðast skal við með endurskipulagningu verkefna eða annarri vinnuhagræðingu ef þörf er á.  Yfirstjórn í samráði við yfirmenn og jafnréttisnefnd. Svo fljótt sem auðið er.

KYNBUNDIÐ OFBELDI, KYNBUNDIN ÁREITNI OG KYNFERÐISLEG ÁREITNI

Í 22. gr. jafnréttislaga er fjallað um kynbundið ofbeldi og kynbundna og kynferðislega áreitni. Allt starfsfólk á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það sæti ekki ofbeldi eða áreitni. Í viðbragðsáætlun skrifstofu Alþingis um kynferðislega áreitni og einelti er fjallað um þessi atriði og um málsmeðferð komi slík atvik upp.

JAFNRÉTTISNEFND SKRIFSTOFU ALÞINGIS

Yfirstjórn skrifstofu Alþingis skipar tvær konur og tvo karla í jafnréttisnefnd til tveggja ára í senn. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með og stuðla að framgangi jafnréttisáætlunar. Í því skyni gætir nefndin m.a. að því að aflað sé kynjagreindra upplýsinga um kjör starfsmanna og aðra þætti eftir því sem kveðið er á um í áætluninni og þær kynntar starfsfólki. Nefndin skilar minnst árlega greinargerð til yfirstjórnar um framgang áætlunarinnar og eftir atvikum tillögur að úrbótum. Nefndin er jafnframt tengiliður skrifstofu Alþingis við Jafnréttisstofu og sendir afrit af greinargerðinni til Jafnréttisstofu. Nefndin hefur forgöngu um endurskoðun jafnréttisáætlunar á þriggja ára fresti.

 

Gildistími

Jafnréttisáætlun þessi gildir frá 1. janúar 2017.