Umhverfis- og loftslagsstefna

Umhverfis- og loftslagsstefna skrifstofu Alþingis nær til allrar starfsemi og reksturs Alþingis. Með umhverfis- og loftslagsstefnu sinni skuldbindur skrifstofan sig til þess að vinna markvisst að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif sem hljótast af starfseminni og að stuðla að fræðslu á sviði umhverfismála til þingmanna og starfsfólks. Markmið umhverfisstefnu skrifstofu Alþingis er að fella alla starfsemi þess að markmiðum í umhverfismálum með sjálfbærni að leiðarljósi. Það er stefna skrifstofunnar að sýna gott fordæmi þegar kemur að orkunotkun, úrgangslosun og aðgerðum til að draga úr kolefnisspori.

Það er stefna skrifstofu Alþingis að umhverfismálin séu alltaf höfð til hliðsjónar í ákvarðanatöku þegar kemur að innkaupum og framkvæmdum. Skrifstofa Alþingis leitast við að vera umhverfisvænn vinnustaður í víðri merkingu. Allt rusl er flokkað og áhersla er lögð á að draga úr efnis- og orkunotkun. Skrifstofan færir grænt bókhald og fylgir stefnu um græn skref í ríkisrekstri.

Umhverfis- og loftslagsstefna skrifstofu Alþingis er sett fram til ársins 2030 en er endurskoðuð árlega. Starfsfólk skal gæta þess í störfum sínum að framfylgja stefnu skrifstofunnar í umhverfis- og loftlagsmálum. Skrifstofustjóri Alþingis er ábyrgur fyrir stefnu þingsins og að henni sé framfylgt. Árlega verða niðurstöður græna bókhaldsins birtar á ytri vef Alþingis ásamt samantekt og tölfræðilegum upplýsingum um þróun í átt að markmiði.


Framtíðarsýn skrifstofu Alþingis í umhverfis- og loftslagsmálum

Það er stefna skrifstofu Alþingis að vera til fyrirmyndar þegar kemur að umhverfismálum og aðgerðir í þeim efnum skulu ávallt taka mið af þeim lögum og reglum sem gilda hverju sinni og stefnu yfirvalda á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

Skrifstofa Alþingi stefnir að því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá starfseminni og minnka þannig þau áhrif sem losunin hefur í för með sér.

Árið 2023 verður tekið í notkun nýtt húsnæði fyrir starfsemi Alþingis sem verður með BREEAM-vottun um visthæfi nýrra bygginga, endurnýjunar eða stækkunar fyrirliggjandi bygginga. Helstu þættir sem eru skoðaðir við BREEAM-vottun bygginga eru orka, mengun, heilsa og vellíðan, efnisval, úrgangur, umhverfisstjórnun, vatn, landnotkun og vistfræði og nýsköpun. BREEAM-vottunin mun veita aðhald og stuðning við að ná fram því markmiði að minnka kolefnisspor Alþingis.

Samgöngur. Á undanförnum árum hefur margt verið gert í samgöngumálum til að draga úr losun. Rúmlega helmingur starfsfólks er með samgöngusamning, settar hafa verið upp hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla og góð aðstaða er fyrir þá sem koma til vinnu á reiðhjóli. Stefnan er að gera enn betur; að fækka flugferðum til útlanda og innanlands með áherslu á fjarfundi og áfram verður starfsfólki umbunað fyrir að nýta sér aðra ferðamáta en einkabíl til að koma sér til og frá vinnu. 

Orkunotkun. Að draga úr orkunotkun með markvissum orkusparnaðaraðgerðum og stýringu. Áfram verður fylgst með orkunotkun og ef vart verður við skyndilega aukningu eða eitthvað annað óeðlilegt verður það skoðað.

Úrgangur. Rafræn gögn á nefndafundum, prentský og fækkun prentara hefur dregið úr pappírsnotkun en áfram verður hvatt til þess að ekki sé prentað nema þess þurfi nauðsynlega og að prentað sé báðum megin. Áfram verður unnið að því að taka við færri eintökum af þingskjölum, dagblöðum, skýrslum og fjöldapóstum. Mötuneyti mun grípa til frekari aðgerða til þess að draga úr matarsóun, vigta matarafganga reglulega og upplýsa um magn.

Efnakaup og ræstiþjónusta. Við ræstingu og viðhald fasteigna eru eingöngu notaðar vörur sem hafa viðurkennda umhverfisvottun og það sama á við um salernispappír og aðrar rekstrarvörur.

Fræðsla. Árlega verður fengin utanaðkomandi fræðsla/ kennsla um umhverfismál og sjálfbæran lífsstíl og verður umhverfis- og loftslagsstefna Alþingis kynnt fyrir nýju starfsfólki.

Yfirmarkmið. Alþingi stefnir að kolefnishlutleysi fyrir árið 2030 og vill með því stuðla að því að markmiðum Parísarsamningsins verði náð. Alþingi ætlar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) um að lágmarki 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 2018, með því að umhverfis- og loftslagsmál verði samtvinnuð allri starfsemi Alþingis.

Gildissvið. Umhverfis- og loftslagsstefna skrifstofu Alþingis er sett fram til 2030 en skal endurskoðuð árlega. Stefnan nær til allrar starfsemi þingsins. Skrifstofustjóri Alþingis er ábyrgur fyrir stefnunni og að henni sé framfylgt.

Umfang. Umhverfis- og loftslagsstefna skrifstofu Alþingis nær til samgangna á vegum þingsins, orkunotkunar, úrgangsmyndunar, og umhverfisfræðslu. Tölur um hvernig gengur að draga úr kolefnisspori Alþingis af völdum flestra þessara þátta má lesa úr græna bókhaldinu, sem hefur verið fært á Alþingi frá árinu 2017, og verður aðgengilegt á Hakinu.

Mælanlegir þættir sem fylgst er með reglulega í græna bókhaldinu eru:

 • Notkun á heitu vatni og rafmagni.
 • Kaup á jarðefnaeldsneyti.
 • Magn sorps sem kemur frá Alþingi.
 • Kaup á ljósritunarpappír.
 • Flug, innanlands og til útlanda.
 • Fjöldi samgöngusamninga.
 • Hlutfall af ræstiefni og rekstrarvörum sem hafa umhverfisvottun.

Sérstakar áherslur í umhverfis- og loftslagsmálum

Nýtt húsnæði fyrir starfsemi Alþingis verður tekið í notkun 2023 og mun þá sá hluti af starfsemi þingsins sem verið hefur í leiguhúsnæði sameinast undir einu þaki. Nýbyggingin verður með BREEAM-umhverfisvottun, sem þýðir að hönnun og efnisval stuðlar að sparnaði í orkunotkun og minni úrgangi. BREEAM-vottunin mun veita mikilvægt aðhald og stuðning við umhverfis- og loftslagsstefnu Alþingis.

Samgöngur. Leiðir til að draga úr losun í tengslum við samgöngur varða bíla í eigu Alþingis, hleðslustöðvar, vistvæna leigubíla og bílaleigubíla, samgöngusamninga, aðstöðu fyrir reiðhjól, fjarvinnusamninga og fjarfundi.

Alþingi á þrjá bíla; rafmagnsbíl, tengiltvinnbíl (hybrid) og dísilbíl. Hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla er að finna bæði í bílakjallara og á bílastæði Alþingis. Þingverðir hafa aðgang að rafmagnshlaupahjóli og rafmagnsreiðhjóli til að fara í styttri sendiferðir og aðstaða fyrir þá sem koma til vinnu á reiðhjóli er eins og best verður á kosið (Platinum-vottun frá Hjólafærni).

Gerðir hafa verið samningar um vistvæna bílaleigubíla og frá árinu 2020 eru allir þingmenn á rafmagnsbílum sem taka bílaleigubíla á kostnað Alþingis í Reykjavík.
Tilmæli hafa verið gefin út um að óska ávallt eftir leigubílum sem ekki nota jarðefnaeldsneyti.

Bílastæði í miðborginni eru takmörkuð auðlind og samfara uppbyggingu á Alþingisreit hefur bílastæðum fækkað sem þingmönnum og starfsfólki standa til boða. Ríflega helmingur starfsfólks Alþingis er með samgöngusamning og kemur því til vinnu með öðrum hætti en með einkabíl. Starfsfólk með samgöngusamninga fær greiddar 8 þús. kr. á mánuði og hefur ekki aðgang að bílastæðum við vinnustaðinn. Starfsfólk sem býr í innan við 2 km fjarlægð frá vinnustaðnum fær ekki bílastæði og starfsfólk sem er ekki með samgöngusamning hefur aðgang að bílastæðum í bílastæðahúsi sem er í tæplega 1 km fjarlægð frá vinnustaðnum. 

Starfsfólki sem vinnur störf sem hægt er að sinna í fjarvinnu stendur til boða að gera fjarvinnusamning og vinna heima einn dag í viku. Fáir eru með slíka samninga í dag en ef fjarvinnusamningum fjölgar mun það einnig draga úr losun í tengslum við ferðir starfsfólks til og frá vinnu.

Heimsfaraldurinn hefur gert það að verkum að allir hafa lært á fjarfundarbúnað og hefur fjöldi funda og ráðstefna hérlendis og erlendis verið haldinn með rafrænum hætti eða blöndu af staðfundum og fjarfundum. Það er líklegt að ferðalögum vegna funda mun fara fækkandi til frambúðar, bæði innanlands og utan. Mikilvæg breyting var gerð á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1994, í nóvember 2020, sem heimilar nefndarmönnum að taka þátt í nefndarfundum með notkun fjarfundarbúnaðar.

Minni úrgangur. Áfram verður unnið að því að draga úr magni af dagblöðum, tímaritum, skýrslum, fagtímaritum o.þ.h. sem tekið er við á Alþingi. Nýlega var tekin sú ákvörðun að minnka stórlega upplagið af prentuðum þingskjölum frá Stjórnarráðinu og verða sum þingskjöl einungis aðgengileg á rafrænu formi. Áfram verður því haldið á lofti að ekki eigi að prenta nema það sé nauðsynlegt. Matarsóun í mötuneyti er mjög lítil en það þarf að fylgjast með henni og er fólk hvatt til að skammta sér hæfilega á diskinn til að minnka matarafganga. Ávallt er boðið upp á salat og grænmetisrétti sem hafa minna kolefnisspor en kjöt og fiskur.

Markviss fræðsla um umhverfis- og loftslagsmál. Á hverju ári verður árangur af umhverfisstefnunni kynntur fyrir þingmönnum og starfsfólki og farið yfir niðurstöður græna bókhaldsins. Auk þess verður a.m.k. árlega fengin utanaðkomandi fræðsla/ kennsla um umhverfismál og sjálfbæran lífstíl.

Kolefnisjöfnun. Skrifstofa Alþingis mun kolefnisjafna eftir viðurkenndum aðferðum og í samvinnu við opinbera aðila. Lögð er áhersla á að kolefnisjafna losun þingsins í tengslum við samgöngur, orkunotkun og losun úrgangs. Langtímamarkmið skrifstofunnar er að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2030.

Eftirfylgni. Skrifstofa Alþingis hefur haldið grænt bókhald frá árinu 2017 þar sem þýðingarmestu umhverfisþættir starfseminnar eru teknir saman. Niðurstöður græna bókhaldsins eru notaðar til að móta stefnu skrifstofunnar í umhverfismálum bæði til lengri og skemmri tíma. Umhverfisnefnd skrifstofu Alþingis, undir stjórn skrifstofustjóra Alþingis, hefur það hlutverk að rýna árlega, og uppfæra eftir þörfum, umhverfis- og loftslagsstefnu Alþingis.

Umhverfisnefnd skrifstofu Alþingis

Til að tryggja að innleiðing umhverfis- og loftslagsstefna sé í samræmi við markmið hennar þarf að skilgreina hlutverk og skuldbindingu lykilstjórnenda á hverju sviði. Umhverfisnefndin fundar a.m.k. einu sinni á ári, fer yfir niðurstöður græna bókhaldsins og leitar leiða til úrbóta ef þörf er á því.

Grænt bókhald á Alþingi 2018 til 2020

Það sem er mælt í græna bókhaldinu:
 • Akstur.
 • Notkun á heitu vatni og rafmagni.
 • Kaup á jarðefnaeldsneyti.
 • Magn sorps sem kemur frá Alþingi, hlutfall flokkaðs úrgangs.
 • Kaup á ljósritunarpappír.
 • Flug, innanlands og til útlanda.
 • Fjöldi samgöngusamninga.
 • Hlutfall af ræstiefni og rekstrarvörum sem hafa umverfisvottun.
 • Pappír.

Stefnt er að því að minnka losun GHL um a.m.k. 40% miðað við árið 2018.

 20182019  2020 21 22 2324 25  2627  2829 2030 
Akstur 203,3 188,32 145,2          122
 Flug 685,28 810,5246           411,2
 Rafmagn 53,03 34,93 35,16          31,8
 Úrgangur 6,01 199,13 125,3          119,5
 Samtals 947,64 1232,88 552,5          684,5

*Tölur um úrgang taka mið af 2019 þar sem talan 2018 er óeðlilega lág.


Uppfært og samþykkt af yfirstjórn í desember 2021.