Umhverfisstefna

Tilgangur

Umhverfisstefnan og framkvæmd hennar á að vera liður í daglegu starfi skrifstofu Alþingis. Með því að draga úr álagi á umhverfið og vekja áhuga á innra umhverfisstarfi leggur skrifstofa Alþingis sitt af mörkum til betra samfélags.

Umfang og ábyrgð

Umhverfisstefnan á við um alla starfsemi skrifstofu Alþingis og undir hana falla innkaup, vinnuumhverfi, notkun auðlinda og meðferð efna og úrgangs.


Yfirstjórn er ábyrg fyrir framkvæmd stefnunnar. Allt starfsfólk framfylgir henni og hefur hana að leiðarljósi í störfum sínum.

Umhverfisstefnan skal endurskoðuð reglulega af yfirstjórn.

Markmið

 • Að fylgja lögum og reglum um umhverfismál á vinnustað.

 • Að byggja á stefnu um vistvæn innkaup og velja umhverfismerktar vörur og þjónustu umfram annað.

 • Að endurnota og endurvinna úrgang sem til fellur eftir því sem kostur er og farga spilliefnum á viðeigandi hátt.
 • Að tryggja starfsmönnum heilsusamleg og örugg starfsskilyrði og reglulega fræðslu um umhverfismál.

 • Að innleiða einfaldar og umhverfisvænar lausnir.

 • Að efla umhverfisvænar samgöngur.

Aðgerðir

 • Velja skal umhverfismerktar vörur í samræmi við stefnu um vistvæn innkaup og nota rammasamning Ríkiskaupa. Við innkaup skal tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Ef þjónusta eða vörur eru sambærilegar ber að velja þann kost sem telst síður skaðlegur umhverfinu.
 • Allar ræstivörur skulu vera með viðurkenndu umhverfismerki og fara ber sparlega með efni við uppþvott og ræstingar.

 • Draga skal úr pappírsnotkun, meðal annars með því að prenta báðum megin á blöðin og gæta þess að prenta hvorki né ljósrita að óþörfu.

 • Kaupa skal tölvu- og skrifstofubúnað með viðeigandi umhverfis- og orkusparandi merkingum. Draga skal úr notkun einnota aðfanga, svo sem einnota borðbúnaðar og umbúða.

 • Flokka skal úrgang í samræmi við leiðbeiningar og flokkunarkerfi þjónustufyrirtækis. Öllum spilliefnum skal fargað á viðeigandi hátt, svo sem rafhlöðum, prenthylkjum, ljósaperum og málningarvörum.

 • Fara skal sparlega með vatn og orkuauðlindir, láta vatn til dæmis ekki renna að óþörfu og slökkva á rafmagnstækjum og ljósum í lok vinnudags.

 • Við rekstur og viðhald bygginga og lóða skal leitast við að velja vistvæna kosti hverju sinni, svo sem málningarvörur, ljósaperur og áburð í garð. Leitast skal við að velja umhverfisvænar leiðir í samgöngum, biðja til dæmis um vistvæna bíla hjá leigubílastöðvum, samnýta leigubíla og ganga eða hjóla styttri vegalengdir.

 • Við kaup á bifreiðum fyrir Alþingi skal velja sparneytin og vistvæn ökutæki.


Samþykkt á fundi yfirstjórnar 11. mars 2014.