Rannsóknaþjónusta og bókasafn

Rannsókna- og upplýsingaskrifstofa og bókasafn

Rannsókna- og upplýsingaskrifstofa sinnir gagna- og upplýsingaöflun fyrir þingmenn og starfsmenn skrifstofu Alþingis. Starfsmenn skrifstofunnar taka saman minnisblöð, gera úttektir úr gögnum, rita samantektir um þingmál og svara margháttuðum fyrirspurnum. Veitt er fagleg þjónusta þar sem gætt er að hlutleysi og áreiðanleika. Trúnaðar er gætt við öflun gagna og vinnslu fyrirspurna. Samdar eru stuttar úttektir eða minnisblöð um mál er varða þingstörfin, samkvæmt óskum þingmanna, starfsfólks eða að eigin frumkvæði. Einnig eru gerðar samantektir um þingmál og veitt fræðsla og aðstoð við öflun upplýsinga á netinu og leit á vef Alþingis.

Rannsókna- og upplýsingaskrifstofa annast gerð fræðslu- og kynningarefnis fyrir Alþingi, ritstjórn vefsvæða Alþingis, móttöku gesta í Skólaþingi og Alþingishúsinu og upplýsingagjöf til almennings og fjölmiðla.

Skrifstofan sér einnig um rekstur bókasafns Alþingis. Efni safnsins er skráð í bókasafnskerfið Gegni, landskerfi bókasafna. Starfsfólk rannsókna- og upplýsingaskrifstofu Alþingis annast afgreiðslu á efni bókasafnsins og millisafnalán. Bækur eru eingöngu lánaðar þingmönnum, starfsfólki þingsins og í millisafnalánum til annarra bókasafna. Afgreiðslutími safnsins er samkvæmt samkomulagi. Frekari upplýsingar fást í síma 563 0630 eða með því að senda fyrirspurnir í tölvupósti.

Starfsfólk rannsókna- og upplýsingaskrifstofu hefur aðsetur á 1. hæð í Skúlahúsi, Kirkjustræti 4, og þar er einnig bókasafn Alþingis.

Sími rannsóknaþjónustu er 563 0630, sími upplýsingafulltrúa og heimsókna 563 0645 og sími vefritstjóra 563 0642.

Reglur um upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis