Aðgengi fatlaðra

Á fundi forsætisnefndar þann 20. mars 2007 var samþykkt eftirfarandi stefna Alþingis í aðgengismálum. Stefna Alþingis í aðgengismálum fatlaðra Alþingi mun leitast við að tryggja að einstaklingar verði ekki sökum fötlunar útilokaðir frá aðgengi að þeim rýmum sem opin eru almenningi. Á sama hátt verða einstaklingar ekki útilokaðir frá störfum hjá Alþingi á grundvelli fötlunar. Með fötlun er átt við einstaklinga sem vegna skertrar færni þarfnast annarra úrræða til að gegna erindum sínum en almennt teljast fullnægjandi. Aðgerðir til að tryggja sem best aðgengi fatlaðra hjá Alþingi:

A. Allir alþingismenn, starfsmenn Alþingis og gestir skulu eiga þess kost að komast hindrunarlaust í og um Alþingishúsið og Skála, þar með talið í þingsal, fundaherbergi þingflokka, á þingpalla og í matsal.

B. Allir þeir sem eiga erindi á fundi í nefndum Alþingis eða í fundaraðstöðu þingmanna í skrifstofuhúsum þingflokka skulu eiga þess kost að komast þangað hindrunarlaust.

C. Tryggt skal að fatlaðir alþingismenn og starfsmenn Alþingis eigi kost á vinnuaðstöðu við þeirra hæfi. Ef þörf er á sérlausnum sem ekki eru til staðar skal leitast við að laga þær að þörfum viðkomandi.

D. Leitast skal við að taka fullt tillit til einstaklingsbundinna þarfa fatlaðra, þingmanna, starfsmanna og gesta og leysa þau vandamál sem upp kunna að koma í því sambandi.

E. Við breytingar eða hönnun nýs húsnæðis fyrir Alþingi skal áfram leitast við að hafa góða hönnun að leiðarljósi sem tekur tillit til og gagnast öllum, fötluðum og ófötluðum.

F. Skrifstofa Alþingis mun hér eftir sem hingað til hafa jafnræðisreglu að leiðarljósi við mat á umsóknum um störf hjá skrifstofunni og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem vera kunna á því að ráðinn sé starfsmaður sem á við fötlun af einhverju tagi að stríða.

G. Unnið skal að því að bæta aðgengi að upplýsingum með tilliti til þeirra sem búa við skerta færni af einhverjum toga.

H. Alþingi skal hafa gott samstarf við hagsmunasamtök fatlaðra, sérfræðinga í aðgengismálum og hönnuði við úrbætur á húsnæði eða úrlausn mála sem varða A - C liði - hér að framan. Þá verða lög og reglugerðir, alþjóðaskuldbindingar og tilmæli hagsmunasamtaka höfð að leiðarljósi.