Reglur um meðferð erinda og málsmeðferð samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn

 Gildissvið og almenn ákvæði. 

1. gr. 


Reglur þessar eiga við um meðferð erinda sem Alþingi berast um meint brot þingmanna á siðareglum fyrir alþingismenn, sbr. þingsályktun Alþingis nr. 23/145 og 18/148.

Reglurnar taka til eftirlits forsætisnefndar Alþingis með framkvæmd reglnanna og úrlausn einstakra mála. 

2. gr. 

Erindi skal beint til forsætisnefndar Alþingis. Það skal vera skriflegt og undirritað af þeim sem það sendir. Auk nafns skal koma fram heimilisfang sendanda og kennitala. 

Forsætisnefnd getur falið skrifstofu Alþingis að taka við erindum frá nafngreindum einstaklingum, staðfesta móttöku þeirra, veita upplýsingar um efni reglnanna, gildissvið þeirra og málsmeðferð. 

3. gr. 

Forsætisnefnd Alþingis felur ráðgefandi nefnd skv. 16. gr. siðareglna fyrir alþingismenn, hér eftir nefnd siðanefnd í reglum þessu, meðferð þeirra erinda sem forsætisnefndin beinir til hennar. Skrifstofa Alþingis útvegar siðanefndinni nauðsynlega aðstöðu og er nefndinni að öðru leyti til aðstoðar, við upplýsingaöflun, bréfasendingar, varðveislu gagna og um önnur atriði er varða störf hennar. 

4. gr. 

Siðanefnd lætur í té álit sitt á því hvort þingmaður hafi með hátterni sínu brotið gegn hátternisskyldum sínum og meginreglum um hátterni. 

Forsætisnefnd Alþingis getur beint fyrirspurn til siðanefndarinnar, og óskað álits hennar á öllum málefnum sem falla undir reglurnar og á þeim aðstæðum sem upp kunna að koma við framkvæmd þeirra.

5. gr. 

Nefndarmaður í siðanefnd má ekki fjalla um mál þingmanns ef hann tengist honum með þeim hætti sem greinir í 1.–3. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga eða ef að öðru leyti eru fyrir hendi slíkar aðstæður að með réttu má draga í efa óhlutdrægni hans.

Forfallist nefndarmaður eða víki hann sæti tekur varamaður sæti hans. Eigi sama við um varamanninn skipar forseti Alþingis annan mann í hans stað við afgreiðslu málsins. 

Verði ágreiningur um almennt eða sérstakt hæfi nefndarmanns sker forseti Alþingis úr. 

Málsmeðferð. 

6. gr. 

Forsætisnefnd Alþingis vísar frá erindi sem ekki fellur undir siðareglurnar eða er tilefnislaust. Þá getur nefndin vísað frá máli ef um er að ræða kæru um meint brot á lagareglum sem hægt er að bera undir úrskurð stjórnvalda eða dómstóla. 

Ef erindi verður ekki vísað frá, sbr. 1. mgr., skal tilkynna þeim þingmanni sem málið varðar um erindið og gefa honum færi á að leggja fram gögn og upplýsingar ásamt því að lýsa viðhorfum sínum til málsins. Að fengnum skýringum þingmanns getur forsætisnefnd Alþingis metið grundvöll málsins þannig að það gefi augljóslega ekki tilefni til frekari umfjöllunar og að vísa beri því frá. 

7. gr. 

Forsætisnefnd Alþingis getur fellt niður mál að fengnum skýringum þingmanns enda verði brot metið minni háttar, svo sem ef fyrir hendi eru afsakanlegar ástæður eða vangá þingmanns sem hann hefur með réttmætum hætti bætt úr og beðist velvirðingar á. 

8. gr. 

Telji forsætisnefnd Alþingis að mál sé þannig vaxið að það gefi tilefni til nánari athugunar, og að því verði ekki lokið skv. 6. og 7. gr., skal nefndin, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, afmarka nánar þá háttsemi sem þingmaður er sakaður um og með hvaða hætti hún getur talist fela í sér brot á meginreglum um hátterni og hátternisskyldur alþingismanna, sbr. 6.–15. gr. siðareglna fyrir alþingismenn. Á þeim grundvelli leitar forsætisnefnd skýringa þingmannsins og að þeim fengnum lætur hún í té álit sitt á því hvort athafnir þingmanns brjóti í bága við meginreglur um hátterni og hátternisskyldur alþingismanna. 

Forsætisnefnd tilkynnir þingmanni þeim sem í hlut á um niðurstöðu sína og ákveður, ef ástæða þykir til og hún er einhuga um, hvort birta skuli niðurstöðuna. 

Þingmaður, sem hlut á að máli, getur ávallt krafist þess að mál sem hann varðar verði lagt fyrir siðanefndina og að álit hennar um mál hans verði birt á vef Alþingis. 

9. gr. 

Forsætisnefnd felur skrifstofu Alþingis að tilkynna þeim sem sent hefur erindi um niðurstöðu sína og álit siðanefndar þegar slíkt liggur fyrir. 

10. gr. 

Þegar það á við eða forsætisnefnd hefur óskað eftir því sérstaklega getur siðanefnd gefið almennar leiðbeiningar um framkvæmd siðareglna fyrir alþingismenn eða einstakar greinar þeirra. 

Skýrslugerð. 

11. gr. 

Skrifstofa Alþingis skal árlega í janúar taka saman skýrslu um fjölda erinda sem borist hafa forsætisnefnd Alþingis og um niðurstöður hennar. Skal skýrslan birt á vef Alþingis. 

Að svo miklu leyti sem niðurstaða forsætisnefndar byggist á túlkun siðareglna skal skrifstofa Alþingis útbúa útdrátt úr umfjöllun hennar um málið og birta sem skýringu við viðkomandi ákvæði í siðareglum fyrir alþingismenn á vef Alþingis. Það á þó ekki við ef ákveðið hefur verið að niðurstaða nefndarinnar sé trúnaðarmál, sbr. 5. mgr. 17. gr. siðareglna fyrir alþingismenn. 

Gildistaka o.fl. 

12. gr. 

Reglur þessar, sem settar eru með stoð í þingsályktun Alþingis nr. 23/145, koma til framkvæmda við setningu 146. löggjafarþings.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar Alþingis 29. ágúst 2016.
Tilvísunum í siðareglur í 3., 8. og 11. gr. var breytt með hliðsjón af þeim
breytingum sem urðu á siðareglum með ályktun Alþingis nr. 18/148.)